Leðurklæddur gallharður Dafoe, gullslegin og græn Collette

Mikill vinna og natni var lögð í hönnun búninga í glæpatryllinum Nightmare Alley, sem frumsýnd verður um næstu helgi hér á landi, 28. janúar. Markmiðið var að gefa upp sannfærandi mynd af tímabilinu sem myndin gerist á, fimmta áratug tuttugustu aldarinnar.

Luis Sequeira búningahönnuður segir í nýju myndbandi sem birt er hér fyrir neðan að 242 mismunandi búningar komi við sögu í atriðum sem gerast í tívolíinu, sem er eitt af sögusviðum myndarinnar, og meira en hundrað búningar séu notaðir í atriðum sem gerast í borginni.

Leikstjóri myndarinnar, Óskarsverðlaunahafinn Guillermo del Toro, segir í myndbandinu að Rooney Mara, sem leikur Molly Cahill, sé í rauðlitum fötum. Toni Collette, sem leikur spákonuna Zeena, sé í grænum og gullslegnum fötum sem eigi að tákna líf, jörð og gras. Willem Dafoe aftur á móti, sem leikur Clem Hoatley, sé gallharður töffari, klæddur í biksvart leður.

Leikararnir fengu að segja sitt álit

Dafoe segir í myndbandinu að Luis hafi byrjað mjög snemma að vinna í búningunum. Hann hafi verið mjög nákvæmur og leyft leikurunum að koma með sínar eigin uppástungur.

Þá kemur fram að klæðnaður Cate Blanchett, sem leikur Dr. Lilith Ritter, eigi að endurspegla ríkmannlegt líf, hún sé djörf og þokkafull.

Bradley Cooper, sem leikur Stanton Carlisle, umbreytist úr fátækum manni yfir í ríkan og klæðnaðurinn eigi að birta það mjög sterkt.

Blekkir auðmann

Eins og fram kemur á vef framleiðanda myndarinnar, Searchlight Pictures, fjallar myndin um það þegar hinn heillandi, en ólánsami Stanton Carlisle kynnist spákonunni Zeenu, og hugsanalesaranum Pete í ferðatívolíi. Þar fær hann gullmiða sem veitir honum hraðferð til frama og velgengni. Hann notar nýfengna þekkingu sína til að blekkja elítuna í New York á fimmta áratug tuttugustu aldarinnar. Með hina dyggðum prýddu Molly sér við hlið, þá skipuleggur Stanton bellibrögð til að svindla á stórhættulegum auðmanni og fær hjálp frá dularfullum geðlækni sem gæti þegar allt kemur til alls orðið hans erfiðasti andstæðingur.

Kíktu á myndbandið hér fyrir neðan:

Nightmare alley: