Justin Timberlake hefur áhuga á Gátumanninnum

riddlerMargir hafa sagt skoðun sína á því að Ben Affleck hafi verið valin í hlutverk Batman. Justin Timberlake er einn af þeim og sagði í nýju viðtali við MTV að honum litist vel á hlutverkavalið og að hann hafi notið þess að vinna með Affleck í kvikmyndinni, Runner Runner, sem er væntanleg í haust.

„Ég ólst upp við að horfa á Batman og það er fyndið að segja frá því að ef ég fengi að velja hlutverk í Batman-mynd, þá væri það Gátumaðurinn. Hann er uppáhaldið mitt. Hann er svo hæfilega geðveikur. Ef ég á að leika einhvern sem er geðveikur, þá má hann vera hæfilega geðveikur… Ég er tilbúinn. Gátumaðurinn. Hringið í mig“. sagði Timberlake við MTV.

Það var Jim Carrey sem lék Gátumanninn upprunalega í Batman Forever, en þá í öllu kómískari útgáfu af Batman. Gátumaðurinn er einn af óvinum Batman. Þegar hann bregður sér í gervi gátumannsins þá klæðist hann fjólublárri grímu og grænum fötum, þöktum spurningamerkjum. Annaðhvort grænum jakkafötum eða þröngum, grænum samfesting. Hann hefur sterka tilhneigingu til að segja alltaf sannleikann, en notar gátur og orðaleiki til að dulbúa orð sín.