Joe Pesci fer í mál við framleiðendur

Alls kyns vandræði hafa plagað framleiðslu myndarinnar Gotti: In the Shadow of My Father. Myndin, sem er ævisaga mafíósans Gotti, hefur lent í því að leikstjórar yfirgefi framleiðsluna, nýjir leikstjórar taki við óundirbúnir, leikkonan Lindsay Lohan hætti við þegar undirbúningur var kominn langt á leið og nú hefur Joe Pesci sömuleiðis stokkið frá skipi.

Pesci hafði skrifað undir samning þess efnis að hann færi með hlutverk besta vinar Gotti og fengi vænar 3 milljónir fyrir. Nú hafa framleiðendur myndarinnar hins vegar rifið þann samning og sakað Pesci um að vilja hætta við myndina.

Talsmenn Pesci segja þetta algert rugl og fara nú fram á skaðabætur þar sem leikarinn hafði bætt talsvert á sig í undirbúningi fyrir hlutverkið. Pesci var boðið minna hlutverk í myndinni fyrir ekki minna en 1 milljón dollara en leikarinn tók það ekki í mál.