J.J. Abrams staðfestur sem leikstjóri Star Wars 7

Disney kvikmyndafyrirtækið og kvikmyndafyrirtækið Lucasfilm, sem er í eigu Disney, staðfestu í gær það sem búið var að segja frá á fimmtudaginn, að J.J. Abrams myndi leikstýra fyrstu Star Wars myndinni í nýrri seríu Star Wars mynda. Myndin verður sú sjöunda í röðinni, en ákvörðunin um framleiðslu myndarinnar var tekin í kjölfar kaupa Disney á Lucasfilm í október sl.

Disney sagði í yfirlýsingu að Abrams væri staðfestur og stefnt væri að frumsýningu árið 2015.  „Það er mjög spennandi að vera búin að fá J.J. til liðs við okkur nú þegar við hefjum gerð nýrrar Star Wars myndar,“ sagði Kathleen Kennedy hjá Lucasfilm. „J.J. er fullkominn í þetta verkefni. Auk þess sem hann er einstaklega hæfileikaríkur leikstjóri , þá er hann með mikið innsæi inn í heim Star Wars myndanna. Hann skilur kjarnann í Star Wars , og mun nota þann hæfileika sinn til að búa til ógleymanlega kvikmynd.“

George Lucas skapari Star Wars myndanna bætti við: „Ég hef margoft heillast af J.J. sem kvikmyndagerðarmanni og sögumanni. Hann er upplagður í þetta verkefni og þetta gæti ekki verið í betri höndum.“

Handritið að myndinni mun Michael Arndt skrifa.

„Að verða hluti af næsta kafla í sögu Star Wars, og að vinna með Kathy Kennedy og þessum ótrúlega hópi fólks, er algjör heiður,“ sagði Abrams. „Ég er jafnvel þakklátari George Lucas núna en þegar ég var strákur.“