Hvetur fólk til að rífa sig upp úr sófanum: „Netflix má ekki vinna þennan bardaga“

Breski kvikmyndagerðarmaðurinn Edgar Wright, sem er best þekktur fyrir myndirnar Shaun of the Dead, Hot Fuzz, Baby Driver og fleiri, stuðlar að mikilvægi þess að fólk sæki kvikmyndahús. Á undanförnum árum hefur aðsókn í bíó dvínað með tilkomu fleiri streymisveita og aukins framboðs í afþreyingarefni. Wright segir slíka þróun eðlilega en telur mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir þeirri upplifun sem hægt er að finna handan sófans í heimastofunni.

Tímaritið ScreenDaily greindi meðal annars frá þessu en Wright var á dögunum staddur á ráðstefnu hjá Samtökum kvikmyndahúsa í Bretlandi eða UKCA (UK Cinema Association) og var þar titlaður aðalræðumaður viðburðarins. Á ráðstefnunni stóð hann fyrir fullum sal af eigendum og rekendum kvikmyndahúsa og brýndi fyrir þeim að eitthvað nýtt þyrfti að gera til að „koma töfrunum aftur í bíóupplifunina.“ Wright segir:

„Það kemur mér alltaf jafnmikið á óvart hvað margir sem starfa í þessum iðnaði, í London og sérstaklega í Hollywood – framleiðendur og leikstjórar, nenna aldrei að horfa á kvikmyndir í sal með áhorfendum. Kannski er heimabíóið hjá þeim svona fínt, en það er svoleiðis hjá mér en ég vil samt alltaf fara í kvikmyndahús og njóta upplifunnar með sal. Það skiptir mig svo miklu máli. Ég vil enn finna fyrir sömu spennunni og ég fann fyrir þegar ég sá Star Wars á ungum aldri.“

Of mikill tími í auglýsingar

Leikstjórinn, framleiðandinn og handritshöfundurinn segist þá gera sér grein fyrir mikilvægi streymisveita í líkingu við Netflix en vill ekki sjá slíkar veitur einoka , eins og hann orðar það. „Netflix má ekki vinna þennan bardaga, Fólk fer í bíó og fær þá tilfinningu eins og það fái ekki nóg úr upplifuninni. Það þarf að vera ástæða til að fólk fari út úr húsi og horfi ekki á kvikmynd á iPhone-síma í lest,“ segir Wright.

Martin Scorsese myndi ekki ráðleggja fólki að horfa á The Irishman með þessum hætti.

„Mér finnst gaman að horfa á efni frá Netflix, en það koma tímar þar sem mig langar bara til að komast út, rífa mig upp úr sófanum.“

Þá snéri leikstjórinn umræðunni að vandamálum sem fylgja kvikmyndahúsum og segir magn auglýsinga vera á meðal þeirra. „Það eru alltaf fleiri auglýsingar á stærri myndum. Mér finnst ekkert að því að horfa á sýnishorn úr kvikmyndum en auglýsingar eru annað mál. Þeim mætti fækka um helming,“ segir Wright.

Má þess geta að kvikmyndagerðarmaðurinn vinnur um þessar mundir hörðum höndum að sálfræðitryllinum Last Night in Soho, sem frumsýnd verður í haust. 

En ert þú sammála Wright? Eru of margar auglýsingar í kvikmyndahúsum hérlendis? 

Finnst þér eitthvað vera hægt að gera til að gera bíóupplifunina meira töfrandi eða ætti hún að heyra sögunni til?