Hvernig drepur maður zombie nasista?

dead_snow_2_red_vs_dead_6fwnmtnvpnNámskeið í því hvernig drepa eigi Zombie nasista, er á meðal dagskráratriða á fyrstu íslensku hryllingsmyndahátíðinni, Frostbiter: Icelandic Horror Film Festival sem haldin verður á Akranesi um næstu helgi, 24. – 27. nóvember. Það eru  hjónin Ársæll Rafn Erlingsson leikari og Lovísa Lára Halldórsdóttir kvikmyndagerðarkona, sem standa fyrir hátíðinni.

Ársæll segir í samtali við kvikmyndir.is að aldrei hafi verið haldin samskonar viðburður hér á landi, en markmiðið hafi verið að gera „spennandi menningarviðburð fyrir fólk á aldrinum 18-35.“

„Íslendingar eiga mikið af óhugnanlegum sögum og bókum. En það hafa ekki verið gerðar margar hrollvekju bíómyndir hér á landi. Það er ekki vegna áhugaleysis enda margir hryllingsaðdáendur hér. En erfitt hefur verið að fjármagna svona myndir hingað til. Við viljum efla íslenska kvikmyndagerðarmenn í að taka áhættu og fá innblástur frá kvikmyndagerðarmönnum út um allan heim.“

„Það eru einhverjir töfrar í hryllingsmyndum. Það þarf ekki mikinn pening til þess að gera hrollvekju sem hefur áhrif á fólk. Hvort sem það grætur, hlær eða öskrar. Sumar bestu hryllingsmyndirnar voru gerðar með svakalega litlu fjármagni, lélegum leikurum og  gervilegu blóði en þær eru samt æðislegar. Fólk sækist í að vera í öruggu umhverfi og upplifa hræðslu og spennu,“ segir Ársæll.

Ásamt fjölmörgum hrollvekjusýningum á hátíðinni, sem fara fram bæði í Bíóhöllinni á Akranesi og Tónlistaskólanum Tónbergi, þá mun áhættuteymið úr hrollvekjunni Dead Snow 2, Ine Camilla Björnsten og Kristoffer Jörgensen, koma og halda fyrirlestur um hvernig drepa eigi zombie Nasista. Þar fara þau í gegnum hvernig áhættuatriðin í Dead Snow 2 voru gerð. Þau verða einnig með áhættuleiksnámskeið á hátíðinni þar sem þáttakendur geta lært grunn í áhættuleik og verður tekin upp stutt splatter mynd í lok námskeiðsins.

Kíktu á dagskrána hér fyrir neðan og plakat hátíðarinnar þar fyrir neðan:

15016256_10153936516187344_435569754950603752_o

frostbiter