Hjálpin enn á toppnum – fellibylurinn Irena setur strik í reikninginn

The HelpThe Help hélt toppsætinu á bíóaðsóknarlistanum í Bandaríkjunum aðra vikuna í röð, samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hollywood, en byggt er á raunverulegum aðsóknartölum frá því á föstudag og laugardag, en tölur frá deginum í dag, sunnudegi, eru áætlaðar. Myndin þénaði 14,3 milljónir Bandaríkjadala á fremur rólegri helgi, enda var mörgum bíóhúsum lokað á austurströnd Bandaríkjanna vegna fellibylsins Irenu.

Irena hætti reyndar að vera fellibylur í dag sunnudag, og var skilgreind sem hitabeltisstormur, en skaðinn var þegar skeður fyrir bíóhúsin.

Talið er að um 1.000 bíóhús hafi verið lokuð að einhverju leyti um helgina, og aðsókn hafi dregist saman um 15-20% vegna þessa.

„Þetta var klikkuð helgi,“ sagði Dave Hollis, yfirmaður dreyfingar hjá Disney, sem sem dreifði The Help. „En miðað við allt og allt, þá er 15-20% samdráttur ekki svo mikið.“

The Help er búin að vera tvær vikur á toppnum, en myndin er gerð eftir vinsælli bók Kathryn Stockett um svartar þernur í suðurríkjum Bandaríkjanna, og sögur sem þær segja af hvítum vinnuveitendum sínum. Myndin hefur þénað 96,6 milljónir dala í heildina, og ætti að skríða yfir 100 milljón dollara markið á þriðjudag.

Seinnipartur ágústmánaðar er yfirleitt notaður til að frumsýnda myndir sem ekki er talið að eigi eftir að fá mikla aðsókn, og Irena bætti ekki úr skák fyrir þær þrjár myndir sem frumsýndar voru nú um helgina.
Colombiana lenti í öðru sæti með 10,3 milljónir dala, sem var samt nokkuð yfir væntingum framleiðenda sem höfðu spáð henni 8 milljónum dala í tekjur, hrollvekja með þeim Guy Pearce og Katie Holmes, Don’t Be Afraid of the Dark, fór í þriðja sætið með 8,7 milljónir dala og gamanmynd með Paul Rudd í aðalhlutverkinu, Our Idiot Brother, lenti í fimmta sæti með 6,6 milljónir dala í tekjur.

Í Colombiana leikur Avatar leikkonan Saldana leigumorðingja sem vill hefna foreldra sinna, en þeir voru drepnir af fíkniefnabarónum. Don´t Be Afraid of the Dark, er framleidd af Guillermo del Toro og er endurgerð á sjónvarpsmynd frá áttunda áratug síðustu aldar um lítil kvikindi sem gera líf fjölskyldu að hrylling. Í Our Idiot Brother leikur Rudd kæruleysislegan gaur sem sest upp á systur sínar eftir að hann sleppur úr fangelsi eftir stutta vist þar.

Hér er topp tíu listinn í heild sinni:

1. The Help, 14,3 milljónir dala.
2. Colombiana, 10,3 milljónir dala.
3. Don’t Be Afraid of the Dark, 8,7 milljónir dala
4. Rise of the Planet of the Apes, 8,65 milljónir dala.
5. Our Idiot Brother, 6,6 milljónir dala.
6. Spy Kids: All the Time in the World, 5,7 milljónir dala.
7. The Smurfs, 4,8 milljónir dala.
8. Conan the Barbarian, 3,1 milljón dala
9. Fright Night 3 milljónir dala.
10. Crazy, Stupid, Love 2,9 milljónir dala.