Heimildarmynd um Ebert framleidd af Scorsese

Ævisaga þekktasta gagnrýnanda okkar tíma, Roger Ebert, er í ótrúlega góðum höndum. Ekki einungis er Martin Scorsese að framleiða heimildarmynd byggða á ævisögu Ebert, heldur mun óskarsverðlaunaði handritshöfundurinn Steven Zaillan skrifa hana og vinna náið með leikstjóra myndarinnar, Steve James, sem færði okkur eina mögnuðustu heimildarmynd allra tíma, Hoop Dreams.

Það var Ebert sjálfur sem tilkynnti þetta merka samstarf á Twitter-síðu sinni. Og kauðinn er byrjaður að birta þar hlekki á rýni sína á myndunum sem sýndar eru nú á Toronto kvikmyndahátíðinni.

Náunginn hefur vægast sagt langa sögu að segja, en hann mótaði ímynd margra um hvað kvikmyndagagnrýnandi væri ásamt félaga sínum heitnum, Gene Siskel, í þáttunum Siskel and Ebert at the movies. Hann varð fyrir barðinu á lífshættulegu krabbameini sem gerði honum ókleift að borða, drekka, og tala eftir aðgerð en hefur síðan þá haldið mikilli lífsgleði og er nú jákvætt og skínandi fordæmi um mannlegan baráttuvilja.

Ebert sjálfur er mjög ánægður með að fá Steve James til að tækla sögu sína þar sem gagnrýnandinn telur Hoop Dreams vera eina bestu heimildarmynd allra tíma.

Nú veit ég varla hvor verður meira tilhlökkunarefni; myndin sjálf eða gagnrýni Ebert um kvikmyndina byggða á eigin sjálfsævisögu.