Hans og Gréta 2 í undirbúningi

Myndin um Nornaveiðimennina Hans og Grétu, eða Hansel & Gretel: Witch Hunters, sem frumsýnd var fyrr á þessu ári, þótti ekki mynda líklegust til að fá framhaldsmynd, sérstaklega eftir að aðsókn varð undir væntingum í Bandaríkjunum þar sem myndin þénaði „aðeins“ 54 milljónir Bandaríkjadala.

Myndin þénaði hinsvegar rúmlega 150 milljón dali utan Bandaríkjanna og þar með var komin forsenda fyrir framhaldi, en The Hollywood Reporter greinir frá yfirlýsingu frá kvikmyndafyrirtækjunum Paramount og MGM þar sem þau tilkynna að framhaldsmynd sé nú í þróun.

Myndin, sem var með þeim Jeremy Renner og Gemma Arterton í aðalhlutverkum, fjallar um þau systkinin úr ævintýrunum, Hans og Grétu, sem sneru á illu nornina og komu henni fyrir kattarnef, en þau hafa gert það að ævistarfi sínu að elta uppi nornir og kála þeim. Eftir að systkinin Hans og Gréta voru skilin eftir í skóginum á sínum tíma römbuðu þau á hús eitt sem reyndist í eigu illrar nornar. Hún lokaði krakkana inni í búri og ef ekki hefði komið til snjallræði Hans og snögg viðbrögð Grétu hefði vart þurft að spyrja að leikslokum. Eftir þessa lífsreynslu uxu þau Hans og Gréta úr grasi reynslunni ríkari og ásettu sér að héðan í frá skyldu þau berjast gegn nornum og kála þeim hvar sem þær væri að finna svo þær gætu ekki lengur framið illvirki eins og að ræna fleiri börnum og éta þau. Hingað til hafa þau systkinin náð góðum árangri í nornaherferð sinni enda vel vopnum búin. Dag einn heyra þau af litlu þorpi sem hefur verið umsetið af norn eða nornum sem numið hafa fimm krakka á brott. Þau ákveða þegar að grípa til sinna ráða en komast þá að því að hér er ekki allt sem sýnist …