Háfleygur B-mynda hrollur

Í stuttu máli virkar „Alien: Covenant“ best þegar hún apar eftir frummyndinni og B-mynda hrollur ræður ríkjum en þegar færa á fram í dagsljósið hluti sem best væri að skilja eftir óútskýrða tekur myndin á sig tilgerðarlegan blæ sem skilur ekki mikið eftir sig.

„Prometheus“ (2012) var forveri „Alien“ (1979) en réri á allt önnur mið og reyndi að tækla ekki ómerkari hluti en tilurð mannsins og tilgang hans. Myndin var metnaðarfullt verk sem virtist ekki heilla marga og því er framhald hennar, sem er enn forveri „Alien“, meira gírað til þeirra sem vilja ákveðna hluti frá þessari myndaröð. Í stuttu máli; morðóðar geimverur.

„Alien: Covenant“ er beint framhald og vísar til liðinna atburða í „Prometheus“ en háfleygar pælingar víkja fyrir gamla góða hryllingnum sem einkenndi fyrstu myndina. Nýlendugeimskipið Covenant er á leið til plánetu þar sem fyrirhugað er nýtt upphaf en óvæntur stjörnublossi stórskemmir skipið, vekur nokkra áhafnarmeðlimi úr djúpsvefni of snemma og yfirmaðurinn um borð lætur lífið. Við viðgerðir á skipinu heyrast dularfull skilaboð sem koma frá óþekktri plánetu og áhöfnin heldur þangað í von um að finna góðan stað til að hefja nýtt líf fyrir mannkynið. Á plánetunni bíður þeirra allt annað en paradís og blóðugt uppgjör við illskeyttar geimverur bíður þeirra.

 „Alien“ virkaði svo vel því hún var beinskeytt hryllingsmynd og í raun bara afskaplega vel heppnuð B-mynd sem var þrælspennandi og óhugnanleg. „Alien: Covenant“ virkar í raun best þegar hún apar eftir frummyndinni og upp nást nokkur vel heppnuð atriði sem fá hárin til að rísa. Vandamálið er að hún vill einnig vera mun dýpri og setja hálfgerðan endapunkt aftan við allar pælingarnar sem „Prometheus“ velti upp og svara fullt af spurningum varðandi uppruna óvættisins sem best hefði verið að láta í friði. Ridley Scott er fyrsta flokks leikstjóri og nær auðveldlega upp spennu og magnþrungnu andrúmslofti þegar hann vill og því veltir maður því fyrir sér hversu spenntur hann var fyrir þessu verkefni. Lykilorðið hér hlýtur að vera „málamiðlun“ þar sem „Alien: Covenant“ framreiðir slatta af því sem áhorfendur vilja sjá en heldur eftir smá af þunglamalegu pælingum forvera síns sem hangir yfir öllu og reynir að láta myndina líta út fyrir að vera meira en bara B-mynda hrollur. Hún er einnig talsvert langdregin og áreiðanlega hefði mátt sneiða smá af henni til að viðhalda betra flæði.

Persónurnar í „Alien: Covenant“ eru of margar og fæstar þeirra fá neina kynningu að viti. Stundum var hreinlega erfitt að átta sig á hverjum var verið að slátra og fyrir vikið er áhorfandanum svo til slétt sama; bara eins lengi og drápsatriðið sjálft er vel af hendi leyst. Að þessu leyti svipar myndinni til slægjumynda og rís í sjálfu sér aldrei mikið ofar í gæðum og vissulega eru nokkur atriðin ansi svæsin.

Leikararnir standa sig bærilega án þess þó að vera sérlega eftirminnilegir ef undan er skilinn Michael Fassbender.  Mest vorkennir maður þó Katherine Waterston sem fær það erfiða hlutverk að vera hin nýja Ripley (persóna Sigourney Weaver í frummyndinni) án þess að fá mikinn tíma, svigrúm eða góðan texta til að vinna með. Mér þótti ansi frumlegt að fá James Franco í hlutverk yfirmanns Covenant skipsins en heildartími hans á tjaldinu náði varla hálfri mínútu.

Það þarf vart að taka fram að öll tæknivinna í myndinni er fyrsta flokks og hún lítur stórkostlega út.

„Alien: Covenant“ er þegar á botninn er hvolft frekar óþægileg samsuða háfleygra pælinga og blóðugs hryllings.

 

Oddur Tryggvason.