Gagnrýni: Morðsaga (stafræn uppfærsla)

mordsagaNú fer bráðum að líða að því að 20 ár séu liðin frá því að íslenska kvikmyndin Morðsaga var gefin út á VHS, en það var einmitt 20 ára afmælisútgáfa. Síðan þá hefur myndin ekki verið gefin út og því er Bókasafn Mosfellsbæjar einn af örfáum stöðum í heiminum þar sem hægt er að sjá hana (það er að segja, þú leigir hana og horfir á hana heima hjá þér ef þú átt VHS tæki).

Það er því vel við hæfi að halda uppá afmælið með því að skanna hana inn í fullum gæðum og gefa hana aftur út. Og það er einmitt það sem Kvikmyndasafn Íslands og Kvikmyndamiðstöð Íslands gerðu. Annan nóvember síðastliðinn var frumsýnd stafræn uppfærsla á myndinni, og eins og sést á myndinni hér fyrir neðan er munurinn á henni og VHS spólunni sláandi.

Auðvitað er myndin miklu skarpari og það bætist líka við mikið af rammanum hægra og vinstra megin sem var skorinn af til að passa í gamaldags sjónvarp. Ekki nóg með að hún hafi verið skönnuð inn og litgreind, heldur var hljóðið líka lagað mikið. Mörg atriði höfðu ekki verið hljóðblönduð nægilega vel á sínum tíma sem olli því að nær ómögulegt var að heyra hvað var sagt. Eitt besta dæmið er draumaatriði sem ein aðalpersóna myndarinnar hefur um viðgerðamann sem kemur í heimsókn til að gera við uppþvottavélina. Það eru þó enn nokkur atriði sem heyrast ekki mjög vel, en það er væntanlega vegna annmarka í upptökunni sjálfri, og því erfitt að laga eftirá.

Þegar myndin var frumsýnd árið 1977 hafði Reynir Oddsson leikstjóri áhyggjur af því að sýningar á henni yrðu bannaðar vegna umdeilds söguþráðar hennar, sem gerðist af og til á þeim tíma. Þessvegna bætti hann við skjátexta í lok myndarinnar sem segir að ákveðnir aðilar hafi fengið dóm fyrir glæp sinn, en til þess að eyðileggja ekki söguþráðinn fyrir þá sem hafa ekki séð hana er líklega best að segja ekki mikið meira. Þessi texti var fjarlægður af VHS útgáfunni og einnig af nýju útgáfunni að ósk leikstjórans, enda miklu meira spennandi að hafa smá óvissu í lok myndarinnar.

En mun meiri breyting ( þótt hún sé líka minniháttar ) er að opnunartitlarnir eru mun lengri. Eins og sést á kredit lista myndarinnar byrjaði myndin á því að sýna aðeins titilinn og leikstjórann. En í nýju myndinni koma einnig fram helstu leikarar og margir aðrir sem tóku þátt í framleiðslunni. Undir nýjum upphafstitlum myndarinnar er einnig píanóleikur sem var ekki í upphaflegu útgáfunni, en þar heyrðist aðeins hljóðið í peningatalningavél. Þótt ég hafi ekki neitt á móti því að bæta þessu við, þá sé ég ekki mikinn tilgang í því. Auk þess passar útlitið ekki við restina af myndinni. Það hefði þurft að setja filter á textann til að láta hann líta út fyrir að vera af 35mm filmu. En í staðinn virðist þetta koma beint út úr Movie Maker.

Þótt ég ætli aðallega að tala um endurútgáfuna sjálfa þá þarf ég samt aðeins að stikla á stóru um hvað mér finnst um myndina sjálfa. Þetta er, eftir því sem ég best veit, fyrsta íslenska kvikmyndin til að vera leikstýrt af Íslendingi sem lærði kvikmyndagerð. Og gæðamunurinn ber það með sér. Myndin er frökk, stílhrein, spennandi, dramatísk, áhugaverð og eftirminnileg. Ég man eftir því þegar ég sá hana fyrst og hvað titilinn á myndinni kom mér skemmtilega að óvart. En að sjá hana í fullri dýrð í bíó var allt önnur upplifun.

Myndin eldist mjög vel og það verður gaman að sjá hvort hún fái nú loks DVD eða Blu-ray útgáfu. Ef til vill í tveimur útgáfum þar sem engar breytingar eru gerðar á titlum myndarinnar. Að rýna svona í breytingarnar minnir óneitanlega á Star Wars Special Edition útgáfurnar. Það hafa reyndar mun fleiri fiktað við myndirnar sínar eftir að þær voru gefnar út. Þá eru þær oft kallaðar Directors Cut eða Extended Edition. Reyndar var Morðsaga auglýst sem endurgerð, sem er svolítið ruglandi, því það hugtak er yfirleitt notað fyrir myndir eins og Contraband sem var endurgerð eftir Reykjavík-Rotterdam.

Ég er rosalega ánægður með að sjá að klassískar íslenskar kvikmyndir eru loksins að fá smá athygli. Ég vona að sem flestir sjái núna Morðsögu, hvort sem það er í fyrsta sinn eða aftur eftir langan tíma. Og ég hlakka til og bíð spenntur eftir að sjá hvaða mynd verður endurútgefin næst.

Eysteinn Guðni Guðnason