Þunnildislegur efniviður en frábær hasar

Í stuttu máli er fimmta „Pirates“ myndin frekar slæm að mörgu leyti en Jack Sparrow er ennþá flottur karakter að fylgjast með og hasaratriðin eru svo mörg og stórkostleg að það er nánast ekki hægt að láta sér leiðast.

„Pirates of the Caribbean: Salazar‘s Revenge“ (sem reyndar hefur undirtitilinn „Dead Men Tell No Tales“ í Bandaríkjunum) kynnir til sögunnar nýjar og gamlar persónur sem hafa mismunandi ástæður til að eltast við þríeggja spjót gríska sjávarguðsins Poseidon sem er grafið einhvers staðar á hafsbotninum; Henry (Brenton Thwaites) er sonur Wills Turner (Orlando Bloom) og með gripnum getur hann aflétt bölvun föðurs síns sem siglir á fordæmdu skipi neðansjávar um alla tíð; Carina (Kaya Scodelario) er munaðarlaus stjörnu- og tímafræðingur (tímafræðingur er á ensku „horologist“ og uppsker það orð frekar augljósa brandara) sem telur sig uppfylla ósk föðurs síns sem hún heldur að hafi alla ævi sína leitað að spjótinu; og svo Jack Sparrow (Johnny Depp) sem þarf á gripnum að halda ef hann á að losa sig undan dauðum (eða ekki-svo-dauðum) spænskum skipstjóra að nafni Salazar (Javier Bardem) og áhöfn hans sem er nýlega laus úr myrkri prísund sinni og á óuppgerðar sakir við sjóræningjann sífulla. Svo er Barbarosa (Geoffrey Rush) snúinn aftur og hann vill fyrst og fremst hjálpa Zalazar að hafa upp á Sparrow, alla vega í fyrstu.

Sprengingar og læti er gefið mál og fimmta myndin í þessari sjóræningjaseríu veldur ekki vonbrigðum þar. Hasaratriðin eru fjölmörg, hröð og mörg hver bráðfyndin og af gríðarlegri stærðargráðu; eitthvað kostaði þessi mynd og allt sést það vel á tjaldinu. Sjónbrellur eru stórkostlegar og eru áhafnarmeðlimir hinna ódauðu sérstaklega vel gerðir og sum atriðin með þeim eru frekar óhugnanleg.

Það versta við „Pirates“ er hve þunnildislegur efniviðurinn er orðinn og myndin treystir um of á Depp og hans sérvisku í hlutverki Sparrow til að halda áhorfandum við efnið. Thwaites og Scodelario eru í raun hin nýju Orlando Bloom og Keira Knightly en ekki er vottur af neista á milli þeirra, samtölin sem þau hafa úr að moða eru óspennandi og ófyndin og svo er tími þeirra á tjaldinu af skornum skammti. Það er svo mikið af hasaratriðum að áhorfandinn fær lítinn tíma á milli þeirra til að kasta mæðinni og svo inn á milli kemur alger neðanbeltis húmor sem er í besta falli sæmilegur.

Handritið er líka mjög slæmt. Ágætis mælikvarði á slæm handrit er að telja tilviljanakenndar atburðarrásir sem knýja söguna áfram og þær koma í einni bunu þegar Henry hittir óvænt Carinu sem eltist við þríeggja spjótið (á öðrum forsendum samt og er sú eina sem gæti mögulega fundið það) og allt gerist það á mjög svipuðum tíma og Sparrow óvart leysir Salazar úr álögum sínum og búmm…hann þarf þá gripinn líka. Leti er orðið sem manni dettur helst í hug. Svo myndi það spilla endanum að ljóstra því upp en ástæðan fyrir því að Barbarosa snýr aftur er til að gefa myndinni óvæntan (en mjög fyrirsjáanlegan) tilfinningaþrunginn endi.

Miklu áhugaverðari er sagan um hvernig Sparrow kom Salazar fyrir kattarnef upprunanlega og sá formáli fær aðeins að njóta sín um miðbik myndarinnar en lítið meira en það. Persónusköpun ristir grunnt og þrátt fyrir að þessi „Pirates“ sé sú stysta af þeim öllum þá fer hún að virka frekar langdregin þrátt fyrir öll hasaratriðin en þau eru það eina sem hún hefur upp á að bjóða af einhverju viti.

Sem fyrr er Johnny Depp frábær sem Sparrow. Ef marka má sögusagnir þá var hann mataður línum sínum í gegnum eyrnartæki þar sem hann nennti ekki að læra þær en þrátt fyrir allt þá er hann einn af fáum björtum punktum hvað varðar leikarana í myndinni. Eini keppinautur hans hér er Javier Bardem sem gefur allt sitt í hlutverk Salazar‘s og er virkilega ógnvænlegur og eftirminnilegur.

Þrátt fyrir að „Pirates“ sé frekar slæm mynd þá efa ég að fólki leiðist þar sem það er alltaf eitthvað að gerast og hasararinn er gríðarlega vel útfærður. En spurning hvort þetta sé ekki orðið gott af Sparrow og hans ævintýrum. Fyrir áhugasama er rétt að geta þess að það kemur atriði að loknum „credits“ og hver veit nema það sé fyrirboði um enn eitt Sparrow ævintýrið.

 

Oddur Tryggvason