Gollum gerir Animal Farm

Andy Serkis, sem leikur Gollum í Hobbit: An Unexpected Journey, og í Lord of The Rings myndunum, ætlar að leikstýra „performance capture“ kvikmyndagerð á hinni frægu sögu George Orwell, Animal Farm, að því er The Hollywood Reporter greinir frá.

Performance Capture er ný leikaðferð í bíómyndum sem varð til þegar Andy Serkis sjálfur var ráðinn til að tala fyrir Gollum í Hringadróttinssögu. Hann lifði sig svo inn í hlutverkið að Peter Jackson leikstjóri ákvað að láta hann leika Gollum og útfæra svo leikinn yfir í tölvu og klára vinnuna þar.

Serkis hefur fengið að reyna sig við aðstoðarleikstjórn í Hobbitanum, og er kominn með leikstjórabakteríuna.

Serkis hefur sjálfur auk Hobbitans og Hringadróttinssögu unnið sem Performance Capture leikari við King Kong, The Adventures of Tintin: The Secret of the Unicorn, og Rise of the Planet of the Apes.  The Imaginarium, kvikmyndaver Serkis og framleiðandans Jonathan Cavendish, mun framleiða myndina.

Serkis mun hugsanlega leika sjálfur aðalhlutverk í myndinni, en er þessa stundina meira að einbeita sér að útfærslu hugmyndarinnar, og mun því ákveða sig síðar varðandi þátttöku sína sem leikari.