Serkis stýrir Venom 2 og Hardy með í handriti

Andy Serkis, sem er hvað best þekktur fyrir leik sinn í hlutverki Gollum í The Lord of the Rings þríleiknum, hefur verið ráðinn leikstjóri framhalds ofurhetjumyndarinnar Venom, Venom 2. MovieWeb segir frá því að Serkis hafi nú nýlega upplýst um eitt og annað varðandi myndina, og eitt af því er að aðalleikarinn, Tom Hardy, taki þátt í handritaskrifum.

Hardy að breytast í Venom.

Andy Serkis var nýlega á sumarkynningarferðalagi Television Critics Association, og þar var hann spurður út í verkefnið, og upplýsti um þetta nýja hlutverk Hardy, en með honum skrifar handritið Kelly Marcel ( Fifty Shades of Grey, Saving Mr. Banks ).

„Tom tekur mikinn þátt í skrifunum með Kelly Marcel, þannig að myndin er mjög miðuð að því hvaða stefnu þau taka,“ sagði Serkis.

Venom gekk frábærlega í miðasölunni, og rakaði saman tekjum um heim allan upp á 856 milljónir bandaríkjadala. En gagnrýnendur voru ekki allir á sama máli, og margir rifu myndina í sig.

Er með skýra mynd

„Ég er í startholunum ennþá. Ég er með nokkuð skýra mynd um það hvert við ætlum sjónrænt séð, og hvernig við getum farið með persónurnar inn í nýjar víddir … ég hef þekkt Tom í mörg ár og alltaf dáðst að honum, bæði sem leikara og framleiðanda. Okkur hefur alltaf langað til að vinna saman. Ég er mjög spenntur fyrir samstarfinu með honum, og öllum hinum leikurunum einnig. Þetta er frábær sería. Mér er heiður sýndur að vera beðinn um að leikstýra myndinni, og sagan er að mínu viti mjög nútímaleg. Ég held að þetta verði frábært bíó.“

Williams staðfest

Fátt fleira er annars vitað um myndina, nema að kreditlisti fyrstu myndarinnar gaf sterklega til kynna að Woody Harrelson myndi snúa aftur sem Cletus Kasady, öðru nafni Carnage. Þá hefur Michelle Williams, sem lék kærustu Venom, staðfest endurkomu í myndina.

Fallegt par.

Enn er óvíst hvenær tökur hefjast, en Slashfilm telur líklegt að frumsýningardagur verði í október á næsta ári.