Gloria fær mömmu í heimsókn

Gloria, sem leikin er af Sofia Vergara, talar í sífellu um heimaland sitt Kólumbíu í þáttunum Modern Family sem sýndur er á Stöð 2. En áhorfendur fá sjaldan að heyra neitt af fjölskyldunni hennar. Hvernig ætli móðir hennar sé?
Nú hafa framleiðendur þáttanna fundið réttu konuna í það hlutverk, en einnig mun fljótlega mæta til leiks systir Gloriu.

( ath. hætta að lesa núna ef þú vilt ekki vita um hvað er að fara að gerast í þáttunum )
Í þáttunum sem nú eru í sýningum í Bandaríkjunum er Gloria orðin ófrísk og því er ekki óeðlilegt að fjölskylda hennar vilji koma í heimsókn til hennar til Bandaríkjanna.  Vefmiðillinn TVLine greinir frá því að Elizabeth Peña hafi verið ráðin til að leika móður Gloriu í þáttunum, og mun hún koma við sögu í 12. þætti í fjórðu þáttaröð.  Stephanie Beatriz hefur síðan verið ráðin í hlutverk systur Gloriu.

Stephanie Beatriz hefur ekki leikið mörg hlutverk um ævina enn sem komið er, en Peña hefur leikið í La Bamba, *batteries not included og Transamerica. Hún talaði einnig fyrir Mirage í The Incredibles. Undanfarið hefur hún leikið aðallega í sjónvarpsþáttum.