Gagnrýni – Paradís: Ást

Paradís: Ást (Paradies: Liebe) er fyrsta myndin í Paradísar tríólógíu leikstjórans Ulrich Seidl sem segir sögu 50 ára gamallar konu, Teresu, sem ferðast til Kenía sem kynlífsferðamaður. Myndin var frumsýnd í gær í Bíó Paradís fyrir fullum sal. Seinni tvær myndirnar í trílógíu Seidl verða einnig sýndar á árinu.

Á ströndum Kenía bíða karlmenn fyrir utan glæsihótel og stara á eldri konur, þessar tilteknu konur ferðast til Afríku einungis til þess sóla sig og stunda kynlíf við infædda. Þar eru konur eins og aðalpersóna myndarinnar, Teresa, þekktar sem sykurmömmur. Konurnar fara oftast einar í þessar ferðir og eru því ekki að taka vinkonur sínar eða fjölskyldu með sér.

paradiseLove_2225419b

Aðalpersóna myndarinnar er óheillandi frá byrjun til enda. Allt frá því hvernig hún hagar sér gagnvart dóttur sinni í heimalandinu og hvernig hún notfærir sér fátæka karlmenn í Keníu til þess að fá sitt, kynferðislega. Vinkonur hennar á hótelinu eru hverri annarri verri og tala um karlmenn eins og kjötstykki, kaupa karlmenn í afmælisgjafir handa vinkonum sínum og gera grín af barþjónum.

Persónusköpun myndarinnar er mjög raunveruleg, þrátt fyrir að hún sé raunveruleg þá er hún ekki góð. Maður finnur ekki til með neinum, því það eru allir að nota hvorn annan. Keníu-mennirnir eru að nota sykurmömmurnar til þess eins að fá pening frá þeim síðar meir og ríku sykurmömmurnar vilja einungis kynlíf. Þó Teresa sé nokkuð frábrugðin, og vilji meira en kynlíf, þá er eins og hún skilji ekki hvað hún er komin út í og gerir sífellt sömu mistökin. Leikararnir standa sig þó prýðilega og skila góðri frammistöðu í sínum hlutverkum.

paradiselove

Handritið nær aldrei neinum hæðum, né lægðum. Sagan stendur í stað og staðan hjá öllum persónunum er sú sama í byrjun og enda myndar. Persónurnar læra aldrei af mistökum sínum og lenda í sömu vandræðunum út alla myndina. Mikið um endurtekningar og lítið um svör og niðurstöður.

Viðfangsefni kvikmyndarinnar er frábært, ef einhver kæmi til mín með þessa hugmynd þá væri ég mjög spenntur fyrir henni, og er því svekkjandi að horfa á mynd með það gott viðfangsefni og efnivið, sem skilar svo litlu, því maður er alltaf gramur út í persónurnar.

Kvikmyndatakan er látlaus og hrá. Skotin eru oftast kyrr og standa í um það bil hálfa mínútu. Hljóðið í myndinni er einnig látlaust og ekki fegruð með tónlist. Bæði mynd og hljóð eru í takt við stemningu myndarinnar og ágætis nálgun á viðfangsefnið.

Þegar allt kemur til alls þá er þetta gott viðfangsefni með hræðilegri persónusköpun og mörgum kvillum í uppbyggingu á sögu.

Paradís: Ást **