Fyrsta stiklan úr We Bought A Zoo

Við sögðum frá því fyrir stuttu að heimildarmynd Cameron Crowe um Pearl Jam væri væntanleg til landsins, en nú er dottið á veraldarvefinn sýnishorn fyrir næstu mynd hans, We Bought A Zoo. Myndin er fyrsta leikna mynd hans síðan að Elizabethtown kom út árið 2005, og er byggð á furðulegri sannri sögu um fjölskyldu sem flytur inn í dýragarð. Atburðarrásin er þó flutt úr enskri sveitasælu yfir Atlantshafið, og í helstu hlutverkum eru Matt Damon, Scarlett Johansson, Elle Fanning og Thomas Hayden Church. Myndin mun koma út þar vestra rétt fyrir jólin, sem er ávísun á það að reyna á við nokkur óskarsverðlaun.

Í stiklunni er tónlist Sigurrósar áberandi, og er það ekki í fyrsta skiptið sem lög þeirra eru notuð þannig. Í þetta skiptið mun þó Jón Þór Birgisson, söngvari hljómsveitarinnar, semja tónlistina fyrir myndina, og verður forvitnilegt að heyra afurðina af því samstarfi. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Cameron Crowe notar tónlist Sigurrósar, en þrjú þeirra heyrðust í myndinni Vanilla Sky frá 2001. Hér er trailerinn:

-Þorsteinn Valdimarsson