Fyrsta stiklan úr Hercules

herculesFyrrum glímukappinn, Dwayne „The Rock“ Johnson, fer með titilhlutverkið í nýrri kvikmynd um hina goðsagnakenndu persónu, Hercules. Margir bíða í ofvæni eftir því að sjá kraftajötuninn í hlutverkinu sem hann var eflaust fæddur til að leika.

Í dag var frumsýnd fyrsta stiklan úr myndinni. Undir ómar rödd sem virðist vera að koma vitinu fyrir Hercules. „Hver ertu? Ertu morðingi? Ertu málaliði sem snýr baki við hinum saklausu? Við trúum á þig“. Stiklan endar svo á dramatísku og öflugu öskri frá Hercules þar sem hann undirstrikar hver hann er.

Leikstjóri myndarinnar er Brett Ratner en myndin er væntanleg í kvikmyndahús þann 25. júlí næstkomandi. Hér að neðan má sjá fyrstu stikluna úr myndinni.

Allir þekkja goðsögnina um Hercules og hin 12 nær óyfirstíganlega erfiðu verkefni sem hann þurfti að leysa af hendi. Sagan í myndinni hefst eftir að verkefnunum er lokið og eftir goðsöguna. Syndir fortíðar ásækja Hercules og er hann orðinn málaliði. En þegar hinn góðviljaði konungur Þrakíu og dóttir hans leita aðstoðar hjá Hercules til að hjálpa sér að sigra illan stríðsherra, þá uppgötvar Hercules að til að réttlætið geti sigrað, þá verður hann aftur að verða sá sem hann var, hann þarf að verða aftur goðsögnin sem hann var og verða Hercules á ný.