Frá Chronicle til Mr. Fantastic

20th Century Fox hefur um nokkurt skeið verið að reyna að koma nýrri mynd um ofurhetjurnar Fantastic Four á hvíta tjaldið. Leit þeirra að nýjum leikstjóra gæti nú verið á enda, en sagt er að hinn 26 ára gamli Josh Trank sé nálægt því að landa starfinu. Trank þessi hefur ennþá ekki sent neitt markvert frá sér, en kvikmyndin Chronicle sem kemur út 3. febrúar, er fyrsta stóra verkefni hans. Sagan segir að fyrirtækið sé í skýjunum með afurðina og vilji halda Trank í vinnu hjá sér. Þó fylgir með að þeir ætli að bíða og sjá hvernig Chronicle gengur í miðasölunni áður en honum verði endanlega boðið starfið.

Fox tilkynnti árið 2009 að fyrirtækið hyggðist byrja seríuna um hin fjögur fræknu alveg upp á nýtt, sennilega vegna mikillar óánægju myndasögunörda með fyrri myndirnar (sérstaklega þá aðra). Ný og aðeins jarðbundnari nálgun yrði beitt, og að sjálfsögðu yrði ráðið í öll hlutverk upp á nýtt. Óskarsverðlaunahafinn Akiva Goldsman (sá sem skrifaði Batman Forever og Batman & Robin) var ráðinn til þess að stýra framleiðslu verkefnisins, og Michael Green (Green Lantern) var settur í að hamra saman handriti. Síðan hefur lítið heyrst af verkefninu, en ef að Trank verður ráðinn leikstjóri fer hún eflaust á skrið.

Ég held að flestir séu sammála um það að ný Fantastic Four mynd frá mönnunum á bakvið Batman & Robin og Green Lantern sé frekar óspennandi tilhugsun, en Trank gæti etv. gert eitthvað áhugavert við efnið. Reyndar er áðurnefnd Chronicle á mjög svipuðum nótum – þó í allt öðrum tón – en hún fjallar um þrjá unglinga sem öðlast ofurkrafta eftir að hafa komist í snertingu við eitthvað yfirnáttúrulegt. Því fer þó fjarri að þessir drengstaular fari að stöðva glæpamenn og hjálpa gömlum konum yfir götur, enda sennilega ekki fyrsta hugsun unglingspilta að gefa af sér þegar þeir uppgötva eitthvað nýtt og spennandi. Hér er einmitt stutt klippa úr myndinni sem sýnir einn þeirra gera tilraun með nýju hæfileikana sýna.

Langar einhvern að sjá aðra Fantastic Four mynd? Ef svo, gæti Trank verið maðurinn í starfið?