Leikstjóri Chronicle drepur risa

Josh Trank er nýstiginn út á frægðarbraut Hollywood og hefur fengið upp í hendurnar hvert verkefnið á eftir öðru, en hann fangaði hjörtu allra framleiðenda iðnaðarins með ódýru ofurhetju-snilldinni Chronicle sem sá dagsins ljós í byrjun ársins. Nýjasta verkefni Tranks er hins vegar ekki langþráður draumur stórlaxa, heldur draumaverkefni sem hann sóttist eftir; en sumir myndu kalla það ferils-sjálfsmorð að leikstýra kvikmynd byggða á leiknum Shadow of the Colossus.

Leikurinn fjallar um unga manninn Wander sem þarf að ferðast í gegnum Forboðna landið og fella 16 risa. Þetta gerir hann til að eignast samúð veru sem á að lífga sálufélaga hans, Mono, aftur til lífsins. Tryggi hesturinn Argo sér um löngu ferðalögin, en án hans er Wander aðeins með boga og sverð sem lýsir leiðina að dvalarstað risanna.

Ekki aðeins er Trank að ögra tölvuleikjamynda-bölvuninni frægu, heldur einnig er hann að tækla einn virtasta og marglofaðasta tölvuleik okkar tíma; þannig augljóslega er gríðarlegt verk fyrir höndum. Sony skeytir þó engu um það og réð Trank til að leikstýra og skrifa handrit myndarinnar ásamt öðrum höfundi. Síðan er það ekki amalegt að hugsanlega fá skapara leiksins, Fumito Ueda, til að hjálpa við framleiðsluna.
Ekki er vitað hvenær Trank hyggst byrja alvöru vinnslu á Shadow of the Colossus, enda er hann með nokkur áhugaverð verkefni í höndunum. Hjá Sony er hann líka að leikstýra ofurillmenninu Venom úr Spider-Man alheiminum í sinni fyrstu kvikmynd, en á meðan fékk Fox hann einnig til að leikstýra Fantastic Four-endurgerðinni.

Maður hefur auðvitað smá trú á að Trank nái að skila góðri tölvuleikjamynd, en líkurnar eru ekki hliðhollar honum. Stóra spurningin sem blasir þó við er sú: Þarf Shadow of the Colossus mynd?
Sem aðdáandi leiksins verð ég að segja að það verður erfitt að fanga svipaða upplifun uppi á hvíta tjaldinu. Hvað segja aðrir?