Fast 7: Hounsou inn – Russell út

djimon hounsouDjimon Hounsou hefur verið ráðinn til að leika í sjöundu Fast and the Furious myndinni, og slæst þar með í hópinn með nýliðum í seríunni, eins og Ronda Rousey og Jason Statham.

Eins og við sögðum frá á dögunum var Kurt Russell einnig í viðræðum um að leika í myndinni, en samkvæmt frétt á Joblo.com þá verður hann ekki með. Samkvæmt twitter skilaboðum sem vísað er í á síðunni, þá er frekar líklegt að Russell mæti til leiks í áttundu myndinni, ef hún verður gerð.

Lykilmenn Fast and the Furious seríunnar mæta að sjálfsögðu aftur til leiks, fólk eins og leikararnir Vin Diesel og Paul Walker, framleiðandinn Neal H. Moritz, handritshöfundurinn Chris Morgan og leikstjórinn James Wan.

Ekki er búið að gefa út nákvæman söguþráð, nema að myndin muni gerast í Los Angeles og nágrenni þar sem hetjurnar þurfa að mæta fólki sem vill hefna fyrir drápið á Owen Shaw.

Síðasta Fast and the Furious mynd, sú sjötta í röðinni, var tekjuhæsta mynd seríunnar frá upphafi, og þénaði litlar 788 milljónir Bandaríkjadala í sýningum á alheimsvísu.

Djimon Hounsou er næst hægt að sjá í myndinni Baggage Claim og síðan á næsta ári: Seventh Son, Guardians of the Galaxy og How to Train Your Dragon 2.