Faðir Frasier látinn

John Mahoney, leikarinn sem var best þekktur fyrir hlutverk sitt sem faðir útvarpssálfræðingsins Frasier Crane í gamanþáttaröðinni Frasier, er látinn, 77 ára að aldri.

En þó að flestir þekki leikarann úr Frasier, þá var það ekki eina hlutverk hans á ferlinum, síður en svo.

Mahoney, sem fæddur var í Blackpool á Englandi árið 1940, hóf ungur að leika á sviði með Streetford Children leikhúsinu. Fjölskyldumál, og vaxandi leikhúsáhugi olllu því að leikarinn flutti til Bandaríkjanna, þar sem eldri systir hans bjó.

Hann gekk í bandaríska herinn til að flýta fyrir því að fá ríkisborgararétt, og fór síðar að kenna ensku við háskólann í Western Illinois, og ritstýra læknatímariti.

Hann sótti leiklistarnámskeið samhliða og á endanum helgaði hann sig leiklistinni, en það var enginn annar en John Malkovich sem hvatti hann til að ganga til liðs við Steppenwolf leikhúsið, en hann lék þar lengi og fékk m.a. Tony verðlaunin fyrir störf sín þar.

Fyrsta bíómyndin sem Mahoney lék í var Hudson Taylor frá árinu 1981, en hann vakti síðan meiri athygli í myndinni Tin Men eftir Barry Levinson árið 1987. Í kjölfarið fylgdu hlutverk í myndum eins og Moonstruck, Frantic, Barton Fink, Striking Distance, The American President, Reality Bites, Primal Fear og Say Anything….

Í sjónvarpi varð hann farsæll sömuleiðis. Fékk ýmis gestahlutverk, og landaði síðan hlutverki Martin Crane í Frasier árið 1993. Fyrir það hlutverk fékk hann fjölda verðlaunatilnefninga.

Mahoney, sem hvorki kvæntist né eignaðist börn, lést á sunnudaginn síðasta.