Eitt sinn dýrlingur…nú alger syndaselur. Q&A við Ian Ogilvy: Taka 2

Ian Ogilvy er orðinn góðkunningi síðunnar en leikarinn geðþekki gaf sér tíma fyrir annað Q&A viðtal.

  • Fyrra viðtal má sjá hér

Ian á langan feril að baki og nú síðast hefur hann vakið athygli í tveimur harðsoðnum breskum krimmum; „We Still Kill The Old Way“ (2014) og „We Still Steal The Old Way“ (2017) en í þeim leikur hann gamlan glæpon að nafni Richie Archer sem, ásamt félögum sínum, sannar að blóðið rennur í gömlum æðum og þeir félagar geta tekist á við ungan rumpulýð sem á ekki skilið að draga andann og einnig fara þeir létt með að smeygja sér inn og út úr tukthúsi ef verkið krefst þess. Fyrir stuttu var tilkynnt að í burðarliðnum væri þriðji kaflinn í myndabálkinum og nafnið gefur til kynna að hann sé líklega sá síðasti; „We Still Die The Old Way“. Einnig skaut hann upp kollinum í nýrri uppfærslu á „The Saint“ (2017) sem frumsýnd var á Netflix á síðasta ári.

Í rúma hálfa öld hefur Ian leikið í mörgum myndum sem vakið hafa mikla athygli og lifað góðu lífi („Witchfinder General“ (1968), „Waterloo“ (1970)), áhugaverðum költ myndum („Revenge of the Blood Beast“ (1966), „And Now the Screaming Starts“ (1973), „Death Becomes Her“ (1992)) og nokkrum sem hafa nánast fallið í gleymskunnar dá og til að mynda fagnar Ian því að nokkrar þeirra, eins og „Invincible Six“ (1970), séu að öllum líkindum alveg horfnar af sjónarsviðinu.

Þekktastur er hann þó fyrir að hafa tekið við af Roger Moore sem Dýrlingurinn Simon Templar í sjónvarpsþáttunum „Return of the Saint“ (1978-1979) og um tíma var hann orðaður við hlutverk njósnarans James Bond. Eftir að göngu „Return of the Saint“ lauk tók við langur ferill af gestahlutverkum í mörgum sjónvarpsþáttum og kvikmyndum, farsæll ritferill og endurkoma í aðalhlutverk í „We Still…“ tvíeykinu og gamli dýrlingurinn heldur áfram vegferð sinni í að verða fyrsta flokks syndari.

Ian er ekki mikið fyrir að básúna eigið ágæti og svarar spurningunum á skemmtilega hreinskiptinn máta. Árið 2016 gaf hann út ævisögu sína „Once A Saint“ og í henni rekur hann lífshlaupið og ferilinn á frekar kómískum nótum en ljóst er að hann hefur starfað náið með mörgum goðsögnum í kvikmyndaheiminum (þ.á m. Vincent Price, Boris Karloff, Peter Cushing, James Mason og Meryl Streep) og býr yfir mörgum skemmtilegum sögum.

Því var gaman að Ian skyldi vera til í töku 2 af spurningum og svörum.

„The Saint“ kom fyrir sjónir almennings á streymisveitunni Netflix á síðasta ári en myndin var fullkláruð árið 2013 og var hugsuð sem prufuþáttur fyrir nýja þáttaröð. Hvað kom til að myndin endaði sem stök sjónvarpsmynd? Hvers vegna var henni ekki vel tekið?

„Ég veit lítið um ganginn á þessari sjónvarpsmynd. Ég var fenginn til liðs frekar seint og mín þátttaka var meira hugsuð sem hálfgerður brandari. Hlutverkið var mjög lítið. Síðan ári seinna var ég fenginn til að leika annan karakter sem spilaði mun stærri rullu og ég eyddi þremur dögum í Rúmeníu við tökur. Ég var svo til síðasta manneskjan sem var frædd um ganginn á myndinni og hvernig henni var tekið og því get ég ekki svarað spurningunni til hlítar.“

Að mínu mati var þessi prufuþáttur alveg ágætur og gaf fín fyrirheit um hvert þættirnir gætu stefnt í framtíðinni. Hvað fannst þér um prufuþáttinn og þitt hlutverk? Var þín persóna hugsuð sem einhver sem átti afturkvæmt síðar?

„Mér þótti prufuþátturinn fínn og Adam Rayner var frábær í hlutverki Dýrlingsins. Mitt hlutverk var frekar tilgangslaust en það var minn skilningur að ef þetta yrði að seríu að ég myndi koma meira við sögu.“

Allt frá því að upprunanlega serían með Roger Moore leið undir lok árið 1969 hafa þrjár tilraunir til að endurvekja persónuna brugðist. Hvers vegna gengur svona illa að endurvekja Simon Templar?

„Því persónan er tímaskekkja. Álíka hetjudáðir eru nú í höndum ofurhetja. Óaðfinnanlega klæddir ungir herramenn sem keyra um á dýrum bílum og bjarga dömum úr hættu eru persónur sem eiga að tilheyra fortíðinni.“ 

Tvær af gömlu myndunum þínum hafa verið gefnar út á Blu-ray nýverið; „Cop-Out“ og „And Now the Screaming Starts“.

„Cop-Out“ (1967) er áhugaverð mynd að mörgu leyti og James Mason er hörkugóður í aðalhlutverkinu. Hvað finnst þér um myndina og ertu ánægður með að hún sé auðfáanleg á nýjan leik þar sem hún var nánast gleymd og tröllum gefin?

„Ég hef ekki séð myndina frá því að hún var frumsýnd árið 1967. Hún var ansi slæm þá og ég get rétt ímyndað mér hve hræðileg hún er í dag. Ég tel að allra hluta vegna hefði myndin átt að gleymast algerlega.“

„And Now the Screaming Starts“ (1973) er klassísk bresk hryllingsmynd frá framleiðslufyrirtækinu Amicus og loks er hún fáanleg í háskerpu. Frábær leikarahópur með Peter Cushing, Herbert Lom og Patrick McGee innanborðs. Hvað finnst þér um myndina og ertu ánægður með að hún er komin út í góðri útgáfu?

„Ég er ánægður með að hún er fáanleg á Blu-ray. Það er ávallt gaman að sjá þessar myndir varðveittar á góðan máta. Ég hafði mjög gaman af að leika í henni. Peter Cushing var frábær manneskja, kurteis og vingjarnlegur. Það var mjög gaman að leika á móti Stephanie Beacham og við erum góðir vinir. Þetta var meira hennar mynd en mín. Einnig vingaðist ég við leikstjóra myndarinnar, Roy Ward Baker, og hann leikstýrði nokkrum þáttum af „Return of the Saint“.“

Ian í „And Now the Screaming Starts“

Þú hættir að leika í hryllingsmyndum eftir „From Beyond the Grave“ (1974), eða að minnsta kosti þar til þú lékst lítið hlutverk í „Puppet Master 5“ (1994). Vildirðu ekki festast í þessari tegund mynda eða fékkstu engin góð boð?

„Þessar tegundir mynda hættu framleiðslu. Í staðinn komu ofbeldisfyllri slægjur. Við gamlingjarnir pössuðum ekki alveg í þær og það var ekki óskað eftir okkur. Ég kom bara fram í Pupper Master 5 því leikstjóri myndarinnar kunni að meta það sem ég hafði gert og hann þurfti eldri mann til að leika vondan vísindamann og hann hugsaði til mín. Það var fallega gert af honum.“

Í síðasta viðtali spurði ég þig hvort gleymd mynd að nafni „Invincible Six“ (1970) væri þess virði að enduruppgötva og þú sagðir nei við því. Önnur mynd sem þú lékst í árið 1967 hljómar ansi áhugaverð og heitir „The Day the Fish Came Out“ og í henni leika einnig Candice Bergen („Murphy Brown“) og Tom Courteny („Dr. Zhivago“). Væri hún vel til þess fallin að fá viðhafnarútgáfu á Blu-ray?

„The Day the Fish Came Out“

„The Day the Fish Came Out“ er ein allra versta bíómynd sem til er og á ekkert betra skilið en að vera hent ofan í djúpa holu. Blu-ray útgáfa myndi ekkert hjálpa til með að betrumbæta þennan óskapnað. Þrjátíu árum eftir að hafa myndað þessa viðurstyggð fékk ég gestahlutverk í Murphy Brown með Candice og ég stakk upp á því við hana að koma með mynd af okkur frá settinu. Þá átti ég við mynd af okkur í þessum framtíðarbúningum sem áttu að vera frá árinu 1997. Hún grátbað mig um að mæta ekki með hana því hún átti von á því að verða fórnarlamb óendanlegrar stríðni á vinnustaðnum í kjölfarið.“

Hverjar mynda þinna telur þú að ætti að gefa frekara líf á Blu-ray?

„Ég veit ekki hverjar þeirra hafa fengið Blu-ray útgáfu og hverjar ekki. Ég er ekki mjög hrifinn af neinni nógu mikið til að mæla með Blu-ray útgáfu.“

Nokkrum árum eftir að göngu „Return of the Saint“ lauk snérirðu aftur í breskt sjónvarp í grínþáttunum „Tom, Dick and Harriet“ (1982-1983). Þættirnir urðu aðeins 12 talsins en óheppilegt slys á tökustað varð til þess að aðal mótleikari þinn, Lionel Jeffries, vildi ekki snúa aftur og þættirnir hættu framleiðslu. Heldur þú að þættirnir hefðu gengið í mörg ár ef þetta slys hefði ekki komið til?

„Ég held að þættirnir hefðu haldið áfram í einhvern tíma en tvennt kom í veg fyrir það. Eftir óhappið missti Lionel alla trú á verkefninu og við misstum einnig tvo handritshöfunda sem vildu snúa sér að öðrum hlutum. Aðrir handritshöfundar skrifuðu nýtt handrit en okkur leikurunum leist ekkert á það og því var þessu bara lokið. Ég hefði verið til í að í að halda áfram endalaust. Vinnan við hálftíma grínþætti er mjög góð; góður vinnutími, góð laun, samneyti við áhorfendur (en reyndar þoldi Lionel ekki þann hluta af starfinu) og svo var mest öll vinnan innandyra í myndveri. Grínþættir, eða svona „sit-coms“, hafa ávallt verið í uppáhaldi hjá mér.„

Gestahlutverk þín í breskum og amerískum sjónvarpsþáttum eru mýmörg. Hvernig var að leika í „The Adventures of Brisco County Jr.“ en sú þáttaröð er í persónulegu uppáhaldi? Hvert er svo þitt eftirminnilegasta hlutverk sem gestaleikari?

„Ég var spenntur fyrir hlutverki mínu í Brisco County af því að ég hafði aldrei leikið í vestra. Ég hafði ímyndað mér sjálfan mig með kúrekahatt og byssur en í ljós kom að ég lék Scotland Yard spæjara og fatnaður minn var þessi týpíski breski „tweed“ jakki og „deerstalker“ hattur. Frekar mikil vonbrigði.

Heilt yfir var besta hlutverk mitt í bandarísku sjónvarpsþáttum í „Early Edition“(1996-2000). Í einum þætti þar lék ég vingjarnlegan þjóf sem stal listmunum.“

Persónan Richie Archer úr myndunum „We Still Kill The Old Way“ (2014) og „We Still Steal The Old Way“ (2017) var ólík flestum sem þú hefur leikið á þínum ferli. Hvað finnst þér um persónuna og þessar myndir sem kalla má gamaldags „glæpona“?

„Eins og þú segir réttilega þá er þessi persóna frábrugðin öðrum sem ég hef leikið og því hafði ég gaman að af leika hlutverkið. Þessir viðkunnanlegu þrjótar hafa ekki verið mitt aðalsmerki. Mér tókst með herkjum að klóra mig í gegnum fyrstu tvær myndirnar og vafalaust mun mér takast það í þriðja sinn ef myndin kemst einhvern tímann úr startholunum.“

„We Still Kill the Old Way“

Í fyrri myndinni hefndi Richie fyrir dauða bróður síns og í þeirri seinni fór hann ásamt félögum sínum viljugur í fangelsi til að hjálpa gömlum vini að flýja tukthúsið. Hvað bíður gömlu félaganna í þriðju myndinni?

„Án þess að segja of mikið þá tel ég að nokkrir okkar munu hverfa yfir móðuna miklu…“

Árið 2004 hófstu formlega ritferil þinn og útgefnar hafa verið nokkrar bækur um persónu að nafni Measle. Hvernig flaug þér í hug þessi persóna og ævintýri hans?

„Innblásturinn að fyrstu sögunni um Measle var sá að ég kom auga á hreint stórkostlegt lestarsett sem ég sá heima hjá einum manni í London. Bókin var ætluð börnum og það tók sinn tíma að koma henni á blað. Hún sló umsvifalaust í gegn og útgefandinn samþykkti fjögur framhöld. Bækurnar seldust vel víða í heiminum og voru þýddar á mörg tungumál.“

Sú hugmynd hefur lengi verið uppi um að framleiða mynd byggða á fyrstu bókinni; „Measle and the Wrathmonk“. Getur það enn orðið að veruleika?

„Það var ætlunin. Fyrst um sinn sýndi Robert Zemeckis því áhuga og Warner Bros. ætlaði að framleiða hana og síðar kom annað fyrirtæki til greina. Enn hefur ekkert orðið úr þessu og mér þykir ólíklegt að þetta muni gerast. Það er miður en að minnsta kosti fékk ég vel greitt fyrir að selja réttinn til að kvikmynda söguna.“

Ertu enn að skrifa?

„Já. Ég skrifa leikrit og bækur. Vel á minnst; ævisaga mín kom út fyrir tveimur árum síðan.“

Í niðurlagi síðasta viðtals sagðir þú að næsti stóri viðburðurinn hjá þér væri vafalaust dauðinn. Finnst þér líklegt að fleiri bækur eða myndir nái að troða sér inn á milli?

„Ég vona það!“