Skoppandi af gleði yfir Bill Bailey – Viðtal við Phil Traill, leikstjóra Chalet Girl


Gamanmyndin Chalet Girl, með Felicity Jones, Bill Nighy, Ed Westwick (þið vitið, þessum sem unglingsstelpurnar öskruðu eftir á Laugaveginum um daginn), Brooke Shields og hinum hárprúða Bill Bailey, kemur í bíó á Íslandi á morgun, 15. apríl, og fengum við á Myndum mánaðarins og Kvikmyndir.is viðtal við Phil Traill, leikstjóra myndarinnar. Þegar Erlingur Grétar Einarsson hringdi í kauða til Bandaríkjanna kvöld eitt fyrir stuttu var það fyrsta sem hann spurði hvað hans eigin mynd héti á Íslandi…

EGE: Chalet Girl. Ekki Powder Girl eða neitt svoleiðis.

PT: Nú jæja. Gott. Þannig er það í Þýskalandi og Austurríki.

EGE: Einmitt. En þá að spurningunum, hvað varð til þess að þú gerðir mynd um skíðaheiminn?

PT: Vinur minn, höfundurinn (Tom Williams), hringdi í mig og sagðist hafa skrifað grínmynd um stelpu sem hefur gaman að því að fara á snjóbretti. Og ég hugsaði um leið: „Jess!“ (hann hlær) Það hljómar eins og það sé skemmtilegur heimur til að kvikmynda! Ég fer sjálfur oft á snjóbretti en ég hafði aldrei séð mynd sem gerist á skíðasvæði, þannig að mér fannst upplagt að kanna þann heim.

EGE: Þið fóruð í Alpana til að taka hana upp, ekki satt?

PT: Jú, hún er tekin upp í St. Anton í Austurríki, sem er frábært svæði. Við þurftum svolítið að spila þetta eftir eyranu. Þegar það er sól líta Alparnir stórkostlega út. Svo vonum við bara að snjórinn komi vel út líka.

EGE: Hvorum megin var það, á fáránlega skemmtilegt/sjúklega erfitt-skalanum, að taka upp þar?

PT: Það var hvoru tveggja í einu. Það er náttúrulega frábært að geta skellt sér á skíði í matartímanum þínum. Og það er yndislegt að bakgrunnurinn í senunum er ekki bara einhverjir fjórir veggir heldur alvöru fjöll. En það er erfitt að því leyti að bæði þarftu að taka veðrið með í reikninginn og svo þarf að koma leikurum, myndavélum, sminkum og öllu liðinu á fjallstopp. Sem getur reynst pínu flókið. Og svo þarf einhver á klósettið.. Þannig að það er praktíska hliðin sem flækist fyrir manni. En það borgar sig alltsaman þegar maður fær svona fallegar tökur út úr því.

EGE: Þannig að þú ert ánægður með útkomuna?

PT: Mjög svo. Ég hef það á tilfinningunni að þegar maður fer í skíðaferð yfir vikutíma, þá gerist eitthvað. Öllum líður talsvert betur og eru tilbúnari til að skemmta sér. Það er bara einhver stemming sem myndast á skíðasvæðum. Vonandi smitast það út í salinn þegar maður sér myndina. Þannig að eftir þennan eina og hálfa klukkutíma þá verða allir slakir, hamingjusamir og frjálsir á ný.

EGE: Það er göfugt markmið. Dómarnir hafa heldur ekki verið af verri endanum (innsk. myndin er til dæmis með yfir 80% jákvæða dóma á RottenTomatoes þegar þetta er skrifað).

PT: Já, þeir hafa verið mjög jákvæðir. Sérstaklega fyrir svona mynd sem allir halda að verði geðveikt vemmileg og auðgleymanleg. Flestir gagnrýnendur geta ekki beðið eftir að fá að rífa svoleiðis myndir í sig. Þannig að það gerir góða gagnrýni sérstaklega ánægjulega.

EGE: Skemmtunin hefur greinilega smitað inn í myndina. Ég sá til dæmis myndband á netinu þar sem Bill Nighy kemur upp um sig sem fantagóður snjóbrettakarl.

PT: (Hann hlær innilega) Það er gott myndband, finnst þér ekki?

EGE: Sjúklega fyndið.

PT: Hann er mjög fyndinn. Svona gleðimóment áttu sér sífellt stað við tökur. Venjulega væri hann ekki til í að gera svona bjánamyndband af sér. En eins og ég segi, þegar maður er á skíðum þá eru bara allir tilbúnari til að skemmta sér. Þannig að hann leyfði sér að gera svona hluti, sem er bara gaman.

EGE: Voru fleiri sem komu þér á óvart með leyndum hæfileikum sínum?

PT: Það kom á óvart hvað fólk var tilbúið að fíflast og skemmta sér mikið, fyrir utan að vinna mjög mikið. Þannig kynntist fólk mjög hratt. Það gerist óneitanlega þegar fólk fer mikið út saman á kvöldin og býr í miklu návígi. Þannig að vináttan sem sést á tjaldinu er raunveruleg. Sko, eiginlega enginn af leikaraliðinu gat neitt á skíðum eða bretti áður en við byrjuðum tökur. Þannig að það þurftu allir að byrja á að læra það.

EGE: Já ókei. Felicity Jones er sjálf á brettinu (í sínum atriðum í myndinni), ekki satt?

PT: Jú, sem er virkilega flott hjá henni þar sem hún lærði þetta bara fyrir myndina. Það má einmitt sjá myndband á netinu af henni að læra. En já, hún var virkilega tilkomumikil á brettinu.

EGE: Það verður ekki sagt annað en að þú sért með toppleikara í öllum hlutverkum. Finnst þér þú ekkert vera ofdekraður að vera með allt þetta hæfileikafólk í kringum þig svona snemma á ferlinum?

PT: Jú, ég meina, það var bara snilld. Og þau virða hvort annað öll mjög mikils. (Veit ekki alveg hvað hann á að segja) En já, leikaraliðið er stórkostlegt og mjög spennandi að fá að vinna með þeim. Og það varð eiginlega bara meira og meira spennandi eftir því sem leið á tökur. Þegar við byrjuðum vissum við ekki hver til dæmis myndi leika konuna hans Bill Nighy. Og svo fengum við Brooke Shields! Og þá varð fólk virkilega spennt, (leikur hysteríska leikara) „Guð minn góður! Þið getið aldrei upp á því hver er að fara að leika hana!“ Þannig að á þeim tímapunkti voru allir farnir að hlæja bara að því hvað leikaraliðið væri frábært.

EGE: Og svo Felicity Jones, sem er á leið upp á stjörnuhimininn.

PT: Algjörlega. Myndin fylgir hennar persónu eftir, sem er fátæk stelpa sem vinnur á hamborgarabúllu og er á þessum stað, einum af þessum eftirsóttustu og dýrustu stöðum í heiminum. Þannig að það lá mikið undir að leikkonan sem færi með hlutverkið gæfi persónunni allt sem hún gæti. Hún þurfti að þekkja persónuna alveg og vita hvernig henni leið í hvaða senu, hvað hún væri að hugsa. Því í lok dags þarf hún að vera mun þroskaðari en í byrjun. Þannig að við treystum á leikkonuna að vera mjög klár og hugsa um hvað hún er að gera. Og í ofanálag þá þarf hún að vera á fullu á bretti og að grínast og opna kampavínsflöskur með tönnunum og fá alla til að hlæja. Þannig að hún þurfti að geta verið mjög alvarleg en algjör bjáni um leið. Felicity gat það og ég held að það sé ekki eitthvað sem maður finnur á hverju götuhorni. Þannig að það er nú ástæðan fyrir vinsældum hennar.

EGE: Skiljanlega. En ræðum aðeins um Bill Bailey (sem leikur föður hennar í myndinni).

PT: Já, þekkið þið hann?

EGE: Já, hann er stjarna á Íslandi. Black Books var einn vinsælasti sjónvarpsþátturinn hérna þrjú ár í röð.

PT: (upprifinn) Frábært! Ég vissi það ekki.

EGE: Maðurinn er goðsögn.

PT: (Hlær) Það er stórkostlegt! Hann var algjörlega einn af þessum leikurum sem við vorum sjúklega spennt yfir að fá, og heppin að fá. Í myndinni leikur hann kannski raunverulegri persónu en oft áður. Þannig að það var mjög spennandi að sjá hann vera fyndinn sem og tilfinningaríkur karakter. Honum tókst mjög vel upp.

EGE: Persóna hans er ekki „brjálaði frændinn“ sem hann er svo þekktur fyrir.

PT: Einmitt. Hann segir sjálfur að hann fái alltaf hlutverk ráðvillta sveitadurgsins (báðir hlæja). En það skiptir öllu í myndinni að manni sé ekki sama um hans persónu. Því að eina ástæðan fyrir að persóna Felicity fer til Alpanna er til að reisa fjár til að hjálpa pabba sínum, sem Bailey leikur. Það væri auðvelt að ráða einhvern sem áhorfendur samsama sig með en finnst ekkert fyndinn. En það er ótrúlegt, ótrúlegt segi ég, að geta verið leiður og fyndinn í einu. En hann getur það.

EGE: Maður fær á tilfinninguna að hann geti gert hvað sem er.

PT: Hann getur gert hvað sem er. Meðan á tökum stóð þá mátti finna hann við píanóið, sem hélt öllum slökum, og enn á ný, hamingjusömum. Geturðu ímyndað þér að hafa Bill Bailey spilandi á píanóið og reytandi af sér brandara meðan maður er að stilla upp fyrir næsta skot?

EGE: Ég væri alveg til í að fremja einhverja glæpi til að upplifa það.

PT: (hlær) Ekki gera það. En hann er ótrúlegur. Hann fór reglulega upp í húsbílinn sinn og samdi tónlist fyrir myndina. Þannig að við eyddum dágóðum tíma í húsbílnum hans að hlusta á tónlist skoppandi af gleði. Hann er snillingur.

EGE: Það er hann. En hvað er næst á dagskrá hjá þér?

PT: Ég er að leikstýra þáttum í Bandaríkjunum. Ég er í miðjum tökum á nýjum þætti með Christian Slater, sem nefnast Breaking In og eru mjög skemmtilegir. Svo vonast maður alltaf eftir að ný mynd falli manni í skaut. Helst á einhverjum rólegum stað. Kannski á Íslandi?

EGE: Kannski. Það vantar allavega ekki flotta tökustaði.

PT: Ekki beint. En já, mig langar að segja að þó myndin sé að mörgu leyti mjög fyndin þá heillaði mig mest fegurðin og ástarsagan og allt það. En svo er hún líka með nöktum gellum í heitum pottum. Og snjóbrettum og handritið er frábærlega skrifað. Ég gerði myndina af því að mér fannst það frábært. Og ég er þrjátíu og fimm ára. Þannig að hún á að höfða til allra.

EGE: Gott að vita. Sérstaklega þetta með stelpurnar.

PT: Ég meina, hver vill ekki sjá mynd með nöktum stelpum í heitum pottum og Bill Bailey?

Þar með slógum við botn í samtalið, en myndin, sem hefur fengið mjög góðar viðtökur í Englandi, þar sem hún hefur þegar verið frumsýnd, rekur á fjörur Íslendinga á morgun og gæti hún vel komið áhorfendum á óvart, miðað við samtal okkar við Phil.

-Erlingur Grétar Einarsson