Lögreglumennirnir Brett (Mel Gibson) og Anthony (Vince Vaughn) eru áminntir fyrir valdníðslu við handtöku og er vikið launalaust úr starfi í sex vikur. Brett tekur þessu ekki hljóðalaust, og með það í hyggju að betrumbæta hag sinn og fjölskyldu sinnar, ákveður hann að notfæra sér undirheimatengsl og kemst að ráni sem mun eiga sér stað fljótlega. Brett og Anthony sitja svo fyrir glæpamönnunum og hyggjast stela ránsfeng þeirra.
Henry (Tory Kittles) er nýlega laus úr fangelsi og við heimkomuna sér hann móður sína og yngri bróður berjast í bökkum í daglegri tilverunni. Henry, ásamt æskuvini sínum Biscuit (Michael Jai White), tekur að sér að vera bílstjóri fyrir hrotta sem ætla sér að ræna gulli úr banka til þess að geta létt undir sér og fjölskyldu sinni.
Leiðir Henry og Brett munu svo mætast og afdrifarík átök eru í uppsiglingu.
Leikstjórinn og handritshöfundurinn S. Craig Zahler hefur getið af sér gott orð og er „Dragged Across Concrete“ hans þriðja mynd. „Bone Tomahawk“ (2015) og „Brawl in Cell Block 99“ (2017) þykja fantagóðar, stemningsríkar og vel skrifaðar (og getur rýnir heilshugar tekið undir það með „Bone Tomahawk“) og nokkuð ljóst er að hér er á ferðinni áhugaverður kvikmyndagerðamaður sem stendur við stóru orðin og lætur ekki myndir frá sér nema hann sé fyllilega sáttur. Sem dæmi; „Dragged Across Concrete“ fékk vilyrði fyrir mikilli dreifingu í kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum frá fyrirtækinu Lionsgate ef Zahler myndi stytta hana niður í 130 mínútur (en hún er 158 mínútur að lengd) en kappinn stóð á sínu og vildi ekki breyta sýn sinni.
Hér næst óneitanlega upp mikil stemning og atriði fá að fljóta í óralangan tíma með hægri atburðarás en allt hefur þetta sitt endatakmark og þökk sé vel skrifuðu handriti, góðum leik og öruggri leikstjórn þá kemst allt til skila. Það er óvíst að það myndi gera það í niðursneiddri útgáfu en fyrir vikið munu enn færri sjá hana.
Allt frá því að Quentin Tarantino sló í gegn með „Pulp Fiction“ (1994) hafa margir leikstjórar reynt að apa eftir stíl hans sem samanstendur af löngum senum, löngum samræðum og gjarnan hröðu ofbeldi sem er óþægilega raunverulegt og harðneskjulegt en tekur fljótt yfir (og auðvitað meira þó þetta sé nóg að taka fyrir fyrir þessa umfjöllun). Handritshöfundurinn Zahler er á par við meistara Tarantino þegar kemur að löngum samræðum þó hann sé alveg laus við húmorinn sem léttir aðeins lundina hjá þeim síðarnefnda. Hann býr til myrka og kalda veröld sem persónur hans lifa og hrærast í og allar ákvarðanatökur eru í dýrari kantinum þó þær séu teknar að vel yfirlögðu ráði. Hér eru engar hvítþvegnar hetjur, sakleysingjar hljóta grimm örlög og verstu hrottarnir eru þannig að manni bregður við. Hér gengur enginn út með bros á vör en án efa eru flestir sáttir við málalokin þar sem hér er enginn fullkominn endir í sjónmáli.
Zahler fær til liðs við sig góðan hóp af leikurum og helst ber að nefna þá Mel Gibson og Tory Kittles sem sýna fantagóðan leik í vel skrifuðum rullum. Allar þessar löngu senur og samræður gefa góðum leikurum gott tækifæri til að raungera persónur sínar og Gibson, sér í lagi, skilar vel frá sér harðneskjulegum manni sem hefur ekki komið sér nægilega vel fyrir í lífinu og grípur til örþrifaráðs til að hlúa betur að sínum nánustu. Vince Vaughn og Michael Jai White skila sínu vel og Jennifer Carpenter, sem skýtur upp kollinum um miðbik myndarinnar í hnitmiðuðu atriði, er einnig eftirminnileg. Svo spillir ekki fyrir að sjá gamla jálka eins og Thomas Kretschmann („The Pianist“), Udo Kier („Mark of the Devil“) og Don Johnson („Miami Vice“) í góðu formi.
Það er alveg hægt að segja að „Dragged Across Concrete“ sé ekki fyrir alla. Hún er hæg, hrikalega ofbeldisfull og niðurdrepandi en hún er gríðarlega vel skrifuð, vel leikin og vel gerð fyrir þá sem hafa áhuga á þessum geira af kvikmyndum.