Djúpið fær góða dóma erlendis

Baltasar Kormákur afhjúpaði nýjustu mynd sinni á kvikmyndahátíðinni í Toronto (TIFF) fyrir nokkrum dögum og hafa undirtektir verið býsna jákvæðar hingað til ef marka má fyrstu dómanna.

The Hollywood Reporter hrósaði myndinni duglega og er hún þar sögð vera „hörð og raunveruleg.“ Í dómnum er þó tekið fram að myndin dali töluvert í seinni helmingnum, en ástæðan er sögð vera sú að hápunktarnir eru svo sterkir í þeim fyrri að myndin nær sér aldrei almennilega á skrið eftirá.

MyETVmedia tekur það sérstaklega fram hve góð tæknivinnslan er, þar sem er mikið dáðst að því hvernig tókst að kvikmynda sumar senur án tölvubrellna. Vefurinn The Globe and Mail gefur síðan myndinni þrjár stjörnur af fjórum og fullyrðir að hér sé um tiltölulega kraftmikla bíómynd að ræða. Aðeins einn dómur hefur fundist sem er í neikvæðari kantinum og hann má lesa hér.

Það kemur sennilega engum á óvart en í öllum rýnunum er dælt endanlausu lofi í Ólaf Darra fyrir túlkun sína á Guðlaugi Friðþórssyni. Myndin, fyrir þá sem ekki vita, er byggð á sannsögulegum atburðum og þrekvirki „Sundlaugs“ þegar honum tókst að synda í land eftir að báturinn Hellisey, sem hann var skipverji á, sökk um miðja nótt þann 11. mars 1984, um 5 km frá Vestmannaeyjum.

Djúpið verður frumsýnd þann 21. september hérlendis.