Danny Boyle vill ekki verða Sir

Danny Boyle, leikstjóri Slumdog Millionaire, 127 Hours og Trainspotting hefur hafnað aðalstitli, en slá átti leikstjórann til riddara í viðurkenningarskyni fyrir leikstjórn hans á opnunarhátíð Ólympíuleikanna í London á síðasta ári.

Ef hann hefði þegið öðlunina hefði hann fengið forskeytið Sir fyrir framan nafn sitt.

Ástæðan er einföld: Hann segir að hann hefði aldrei getað gert þetta nema með hjálp þúsunda aðstoðarmanna, þar á meðal áhættuleikarans sem stökk út úr þyrlu í gervi Elísabetar Englandsdrottningar.

„Þetta er bara ekki fyrir mig,“ sagði hinn 56 ára gamli Boyle við Radio Times í Bretlandi. „Mér fannst það líka bara rangt, í raun og veru.“

Og hann hélt áfram: „Þú getur haldið ræður um „þetta er samvinnuverkefni, bla, bla, bla.“ Og þú verður að meina það sem þú segir, og ég meinti það, og það er satt, og það er eina leiðin til að framkvæma svona verkefni: með hjálp alls fólksins. Ég veit ekki hvort mér verður einhverntíman boðið aftur í höllina.“

Boyle sagði í viðtalinu að hann og John Hodge séu að vinna að handritinu að framhaldi Trainspotting, Porno, eins og við sögðum frá hér á síðunni á dögunum. Myndin mun fjalla um persónurnar í Trainspotting 20 árum síðar.

 

Stikk: