Dakota verður ástkona Errol Flynn

Empire kvikmyndaritið greinir frá því að leikkonan Dakota Fanning muni leika aðalhlutverk á móti Kevin Kline í myndinni The Last Of Robin Hood sem fjallar um leikarann og hjartaknúsarann Errol Flynn.

Kline mun leika Flynn á síðustu árum ævi hans, áður en hann lést af völdum hjartaáfalls fimmtugur að aldri.  Á síðustu mánuðum ævi hans átti hann í ástarsambandi við leikkonu á táningsaldri, Beverly Aadland, sem var við hlið leikarans þegar hann lést.

Samband þeirra hófst árið 1957 þegar Flynn hitti Aadland í Warner Bros. kvikmyndaverinu, og það leiddi til þess að hann kom henni að í kvikmyndinni Cuban Rebel Girls frá árinu 1959. Þetta átti sér allt stað á meðan hann var í fyrsta lagi giftur leikkonunni Patrice Wymore og í öðru lagi í kjölfar sögusagna sem grasseruðu um leikarann eftir að hann hafði verið hreinsaður af ásökunum um nauðgun árið 1942.

Richard Glatzer og Wash Westmoreland skrifuðu handrit myndarinnar og ætla sé að leikstýra einnig. Susan Sarandon mun leika hina ágengu móður Beverly, Florence, sem skrifaði bókina The Big Love um sambandið.

Nýjustu myndir Fanning eru Very Good Girls, Effie og Night Moves.