Cooper verður óþokki í villta vestrinu

Bradley Cooper er búinn að koma sér kirfilega fyrir meðal stórstjarnanna í Hollywood og getur nú valið úr hlutverkum. Hann hefur nú tekið að sér að leika aðal illmennið í myndinni Jane Got A Gun, samkvæmt frétt Empire kvikmyndaritsins.

Samkvæmt fréttinni hefur ýmislegt gengið á við að klára ráðningu leikara í myndina, auk þess sem leikstjórinn Lynne Ramsay stakk af á fyrsta tökudegi eftir að hafa lent upp á kant við framleiðandann. Þá steig leikstjóri Warrior, Gavin O´Connor inn í stað Ramsay og tók við leikstjórnartaumunum.

Jane Got A Gun fjallar um Jane, sem leikin er af Natalie Portman, en útlaginn eiginmaður hennar, kemur heim allur sundurskotinn og nær dauða en lífi eftir að gengið hans sveik hann. Nú er glæpagengið á leiðinni til að ljúka verkinu endanlega, og þá bregður Jane á það ráð að leita til byssumanns og fyrrum elskhuga til að hjálpa sér að verja bæinn.

Joel Edgerton, sem átti að leika leiðtoga óþokkanna, skipti um hlutverk og tók að sér að leika byssumanninn, þegar Michael Fassbender datt út, áður en tökur hófust.

Þá var Jude Law ráðinn í hlutverk óþokkans, en ákvað að hætta við þegar Ramsay hætti, af því að hann hafði tekið að sér hlutverkið til að vinna með Ramsay.

Nú mun því Cooper mæta á svæðið og leika óþokkann eftir að hann hefur lokið störfum við tökur á nýjustu mynd David O. Russell en tökur á þeirri mynd standa nú yfir í Boston.