Columbus finnur Krist

Tilvistarkreppa hins sjö ára gamla Jesús verður efniviðurinn í næstu mynd framleiðandans Chris Columbus. Þó situr Columbus ekki í leikstjórasætinu að þessu sinni, heldur er það Cyrus Nowrasteh sem hefur áður leikstýrt dramamynd sem gerist í Mið-Austurlöndunum og er einnig handritshöfundur myndarinnar ásamt Betsy Nowrasteh.

Bókin fjallar um Jesús og fjölskyldu hans þegar þau snúa heim frá Egyptalandi, en heima fyrir verða þau vitni að byltingartímum sem hófust í kjölfar dauða Heródesar konungs. Innan um þessa byltingu á hinn barnungi Jesús erfitt með að finna sinn samastað meðal fjölskyldunnar þar sem hann getur framkvæmt hin ýmsu kraftaverk og hefur hann þá leitina að svörum varðandi hlutverk hans í lífinu.

Bókin er eftir metsöluhöfundinn Anne Rice sem er þekkt fyrir sínar langlífu vampírubækur og umdeildan þríleik byggðan á sögunni um Þyrnirós, þó þykir flestum bókin um hinn unga Jesú vera ein sérstæðasta viðbótin í bókaferil hennar. Ekki kannast ég við að hafa séð söguna um hinn unga Jesús á hvíta tjaldinu og gæti orðið spennandi að sjá hvað verður úr þessu verkefni. Í það minnsta verður þetta umdeild kvikmynd.