Cobain gerir alvöru Cobain mynd

kurt cobainFrances Bean Cobain, dóttir söngvara grugg hljómsveitarinnar goðsagnakenndu, Nirvana, Kurt Cobain, er framleiðandi nýrrar heimildarmyndar um líf föður síns, en um er að ræða fyrstu heimildarmyndina um Cobain sem er gerð með fullu samþykki fjölskyldu söngvarans sáluga.

Leikstjóri er Brett Morgen, en myndin, sem heitir Kurt Cobain: Montage of Heck, mun sækja efnivið í gagnasafn Cobain sjálfs, svo sem upptökur, listaverk, ljósmyndir, dagbækur, söngbækur og persónuleg heimavídeó, allt með samþykki fjölskyldunnar.

„Ég byrjaði á verkefninu fyrir átta árum síðan,“ segir Morgen í fréttatilkynningu. „Eins og flest fólk, þá, þegar ég byrjaði, hélt ég að það yrði frekar takmarkað nýtt efni sem ég gæti komist í. En þegar ég komst í þetta gagnasafn, þá uppgötvaði ég meira en 200 klukkustundir af óútgefinni tónlist og öðru hljóðefni, og miklu safni af listaverkum ( olíumálverk, höggmyndir ), endalaust af áður óséðum heimavídeóum, og meira en 4.000 blaðsíður af skrifuðu efni en saman hjálpast þetta allt til við að búa til mynd af listamanni sem lét sjaldnast mikið uppi við fjölmiðla.“

Morgen, sem hefur fengið tilnefningu til Óskarsverðlauna, hefur unnið við svipaðar heimildarmyndir, eins og Rollings Stones myndina Crossfire Hurricane, sem hann leikstýrði, og ævisögu Roger Evans, The Kid Stays In The Picture.

Hann lýsir Cobain sem „mótsagnakenndum“, og segir í yfirlýsingu, að hann hafi verið „einlægur og viðkvæmur, kaldhæðinn og meinhæðinn, sætur og súr“ og einnig „ótrúlega fyndinn.“

Aðdáendur Cobain vonast til að Montage of Heck reynist verða áreiðanlegri heimild en hin umdeilda heimildarmynd Kurt and Courtney frá 1988, og hin að sögn samsæriskennda Soaked in Bleach, sem er væntanleg á markaðinn.

Myndin er nefnd eftir hljóðsnældu með ýmsum lögum á sem Cobain gerði, og kom fram í dagsljósið fyrr í þessum mánuði, en á henni má finna hljóð í klósetti þegar verið er að sturta niður úr því,  Black Sabbath, Jimi Hendrix ofl.

Cobain tók eigið líf með haglabyssu árið 1994, aðeins 27 ára að aldri.

Enn er óvíst hvenær myndin verður frumsýnd, en líklega verður hún sýnd einhverntímann á næsta ári á HBO sjónvarpsstöðinni. Eftir það hyggst Universal kvikmyndaverið sýna hana í bíóum um allan heim.