Kurt Cobain 85% óséð efni – Fyrsta stikla!

Fyrsta stiklan úr nýjustu heimildarmyndinni um Nirvana-gruggrokkarann sáluga Kurt Cobain, Cobain: Montage of Heck, er komin út, en myndin verður frumsýnd síðar í mánuðinum í Bandaríkjunum í almennum sýningum.

Það eru bráðum 21 ár síðan tónlistarmaðurinn tók eigið líf en síðan þá hafa verið gerðar nokkrar heimildarmyndir um þennan goðsagnakennda listamann, en engin með leyfi fjölskyldunnar eins og þessi er, og með eins miklu af óséðu efni.

cobain_montage_of_heck_poster_2-620x926

Myndin var frumsýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni í janúar sl. og var mjög vel tekið. Leikstjóri er hinn Óskarstilnefndi Brett Morgen.

„Um 85% af efninu í myndinni hefur aldrei komið fyrir sjónir almennings,“ sagði Morgen við Yahoo fréttaveituna. „Þar á meðal eru nokkur hljóðbrot, hluti af sjálfsævisögu sem hann tók upp, ábreiða Cobain af Bítlalaginu And I Love Her, margar myndir frá æskuheimili hans og af honum sem ungum dreng, og viðtöl við föður hans, móður og systur. Þá er í myndinni 12 mínútna mynd af Kurt heima við ásamt eiginkonu sinni Courtney og dótturinni Frances.“