Casey kærður fyrir kynferðisáreitni

Bandaríski Hollywood leikarinn Casey Affleck vinnur nú að heimildarmynd um vin sinn Joaquin Phoenix. Hann stendur nú í dómsmáli sem tengist myndinni en kona sem vann að myndinnni hefur kært leikarann fyrir kynferðislega áreitni.

Lögmaður Affleck og framleiðslufyrirtækis hans Flemmy Prods, Michael Plonsker, segir í yfirlýsingu að þeir neiti öllum ásökunum konunnar og ætli að kæra hana til baka. Konan heitir Amanda White og vann að myndinni sem heitir „I´m Still Here: The Lost Year of Joaquin Phoenix“. White segir að Affleck hafi neitað að borga henni eftir að hún hafi neitað að eyða nótt með leikaranum á hóteli.

„Ásakanirnar eru fáránlegar og tilhæfulausar með öllu,“ segir Plonsker.

White krefst 2 milljóna Bandaríkjadala í bætur vegna þess að hún hafi verið neydd til að taka þátt í kynferðislegum greiðum á vinnustað og auk þess að taka óvænt þátt í tökum á hóteli í Las Vegas með vændiskonum og klæðskiptingum.

Hvorki Joaquin Phoenix né Magnolia Pictures, sem nú nýlega tryggðu sér dreifingarréttinn að myndinni og ætla sér að frumsýna hana í september, koma við sögu í þessu máli.