Cage duglegur að borga skuldir

Kvikmyndaleikarinn Nicolas Cage er með mörg járn í eldinum þessa dagana, enda ekki vanþörf á þar sem leikarinn hefur undanfarin ár verið að reyna að koma sér úr skuldafeni, en hann skuldar bandarískum yfirvöldum umtalsverðar fjárhæðir í vangoldna skatta. 

Nýjasta skuldin sem honum var gert að greiða kom til í fyrra, en þá var honum tilkynnt að hann skuldaði 625 þúsund dali í skatta, en samkvæmt heimildum TMZ fréttaveitunnar þá virðist hann hafa gleymt að borga skatt af einhverjum mjög dýrum gjöfum sem hann gaf á árunum 2004 – 2009.

Á árunum 2002, 2003, 2004 og 2007 safnaði Cage upp 13 milljóna dala skattaskuld, en í apríl sl. borgaði hann helming þeirrar upphæðar og skuldar því nú ríflega 6 milljónir dala af þeirri upphæð, eða nálægt 800 milljónum íslenskra króna.

Það er því ekki skrýtið að hann taki að sér eins mörg verkefni og hann getur, en á næstunni eru verkefni eins og Kick-Ass 2, Ghost Rider 2, National Treasure 3 framundan hjá leikaranum, auk annarra verkefna.

Cage kenndi fyrrum fjármálastjóra sínum um ógöngurnar sem hann komst í, og hefur sakað hann um að hafa nær gert sig gjaldþrota.

 

Stikk: