Brolin verður í aðalhlutverki í Oldboy endurgerð

Nú streyma inn Oldboy fréttir, og sú nýjasta er að Josh Brolin, sem margir þekkja sem Bush Bandaríkjaforseta í W og sem þorpara í True Grit, sé búinn að skrifa undir samning um að leika undir stjórn Spike Lee í endurgerð hinnar Suður – kóresku Oldboy.
Um daginn sögðum við frá því hér á kvikmyndir.is að Christian Bale væri að íhuga að ganga til liðs við Oldboy, þrátt fyrir að hafa margt á sinni könnu þessa dagana.

Handritshöfundur I am Legend, Mark Protosevich, skrifar handrit myndarinnar eftir upprunalegu handriti Park Chan-Wook frá 2004. Brolin mun leika mann sem er rænt á afmælisdegi dóttur sinnar og er haldið föngnum af dularfullum glæpamanni í einangrun í 15 ár, án þess að vita af hverju.
Þegar hann er látinn fær hann í hendurnar vopn sem hann getur notað til að ná fram hefndum á kvalara sínum, en áttar sig fljótlega á því að þetta er allt hluti af stærra plotti – og að sjálfsögðu stigmagnast ofbeldið.

Lee tekur við þessu verkefni frá Steven Spielberg, sem upprunalega keypti réttinn til að gera myndina árið 2008, og ætlaði að hafa Will Smith í aðalhlutverkinu. Nú er hinsvegar komið í ljós að Brolin mun leika aðalhlutverkið og beðið er eftir því hvað Christian Bale segir um að leika aðal þorparann.

Annars er nóg að gera hjá Brolin á næstu mánuðum. Hann er að hefja leik í Gangster Squad, og þá leikur hann einnig í Labor Day, en þar leikur hann fanga á flótta sem felur sig hjá persónu sem Kate Winslet leikur. Við sjáum Brolin hinsvegar næst á hvíta tjaldinu í Men in Black 3, þann 25. maí nk.