Náðu í appið
Bönnuð innan 16 ára

True Grit 2010

Justwatch

Frumsýnd: 11. febrúar 2011

Punishment comes one way or another

110 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 95% Critics
The Movies database einkunn 80
/100
Tilnefnd til tíu Óskarsverðlauna, þar á meðal sem besta mynd, Jeff Bridges sem besti leikari og Hailee Steinfeld sem besta meðleikkona.

Myndin gerist árið 1877 í bænum Fort Smith í Arkansas, en þá er Mattie Ross 14 ára. Faðir hennar er myrtur á hrottalegan hátt af einum undirmanna sinna, Tom Chaney. Chaney flýr af vettvangi með tvo hesta föðursins og það sem meira er: gull sem var í eigu hans. Mattie vill tafarlausa hefnd og leitar til hins gamalreynda og grjótharða lögreglumanns Rooster Cogburn,... Lesa meira

Myndin gerist árið 1877 í bænum Fort Smith í Arkansas, en þá er Mattie Ross 14 ára. Faðir hennar er myrtur á hrottalegan hátt af einum undirmanna sinna, Tom Chaney. Chaney flýr af vettvangi með tvo hesta föðursins og það sem meira er: gull sem var í eigu hans. Mattie vill tafarlausa hefnd og leitar til hins gamalreynda og grjótharða lögreglumanns Rooster Cogburn, en hann hafnar umleitunum hennar. Hún krefst þess þó að fylgja honum, en hefur sífellt minni trú á Cogburn, vegna drykkjuskapar hans og hegðunar. Málið tekur nýja stefnu þegar annar lögreglumaður, LaBoeuf , mætir á svæðið, en hann er einnig á höttunum eftir Chaney. Hann og Rooster taka loks höndum saman til að hafa uppi á Chaney, en þá tekur við hættuleg för þremenninganna til að ná fram hefndum, þar sem ýmislegt kemur á óvart.... minna

Aðalleikarar


Coen bræður endurgera hér True Grit og heppnaðist það bara ágætlega að flestu leyti. Jeff Bridges fer á kostum sem lögreglufulltrúinn Rooster Cogburn og fær mann til að líka við karakterinn frá upphafi. Stelpunni trúði ég hins vegar ekki alveg, hún hagar sér eins og hún væri mun eldri. Hún stendur sig samt vel og á hér góðan samleik með Bridges. Aðrir leikarar í myndinni á borð við Matt Damon og Josh Brolin eru svona jújú en hlutverk þeirra flatt skrifuð. True Grit er skemmtileg og blóðug og stundum mjög svöl en á köflum gerist lítið í henni sem er það helsta sem dregur hana niður. Ég skemmti mér í heildina yfir þessum Coen vestra og er alveg á mörkunum með að gefa henni þrjár stjörnur en mér finnst hún ekki alveg eiga það skilið þannig að hún fær tvær og hálfa. Alveg hægt að kíkja á þessa.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Kom vel á óvart
Ég fór á True Grit um daginn þegar kvikmyndir.is og myndir mánaðarins buðu í verðlaunaafhendingu og forsýningu og kom myndin mér skemmtilega á óvart.

Þetta er ein fjölmargra mynda eftir Coen bræðurna en þeir eiga það til að gera mjög mismunandi týpur af myndum.
Hér er á ferð endurgerð á sígildum vestra með John Wayne. Hún fjallar um Maddie Ross, 14 ára stelpu sem að ætlar að hefna föður síns sem hefur nýlega verið skotin til bana. Hún ræður til sín gamlan en reyndan mann, Jeff Bridges. Þau leggja af stað á slóð Chaney ásamt lögreglumanni frá Texas (Matt Damon).

Hin 14 ára Hailee Stenfield sem leikur Maddie Ross er mjög skemmtileg í hlutverki sínu, og þó hún vinni kannski ekki óskarinn sem hún var tilnefnd fyrir í ár, held ég að hér sé á ferð ein af framtíðarleikonum Hollywood. Jeff Bridges stendur fyrir sínu og Matt Damon gerir hæfilega mikið grín af sjálfum sér í myndinni.
Það sem hefði getað verið hádramatísk leiðinleg mynd, verður drama með góðum húmor og smá setja gæðastimpil á þessa mynd.

Það er bara eitt sem ég hef út á True Grit að setja og það er epilogue hennar sem var algjörlega óþarfur og var Maddie Ross sem fullorðin kona hundleiðinleg. Takið líka eftir fáranlegasta lagavali í heimi í lok myndarinnar!

Ég fíla ekki Coen bræðra myndir almennt (ég tek persónulega við dissi frá öðru fólki ef þið viljið ræða þetta eitthvað) þótt ég hafi reynt að horfa á nokkrar þeirra.
En þessa mynd fílaði ég í tætlur. Ég mæli eindregið með að fólk gefi henni séns og hlakka ég til að fylgjast með henni á óskarnum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Góður vestri, meðalgóð Coen-mynd
Mér líður eins og ég hafi framið einhvern glæp þegar ég segist ekki hafa séð upprunalegu John Wayne-myndina þar sem ég er bæði kvikmyndafrík og mikill vestragaur. Ég mundi hins vegar fyrr láta fjarlægja úr mér endajaxlanna án deyfingar í stað þess að missa af einhverju nýju frá Coen-bræðrum, sérstaklega ef það er kúrekamynd af gamla skólanum sem sameinar Jeff Bridges, Matt Damon og Josh Brolin. Það er erfitt að spennast ekki örlítið upp, og ég lét það alveg fara framhjá mér að seinast þegar bræðurnir ákváðu að endurgera mynd (The Ladykillers) þá varð það hiklaust sísta myndin þeirra. Héðan í frá verð ég samt ekki jafn spenntur fyrir mynd frá þessum fjölhæfu mönnum ef hún er endurgerð, því einhvern veginn þykir mér það fulláberandi hvað þeir eru ekki jafn mikið í gírnum þegar efnið er ekki "100% Coen" og algjörlega úr þeirra hugarheimi. Það eru vissulega örfáar undantekningar (eins og No Country for Old Men - sem var byggð á bók - og hin stórlega vanmetna Intolerable Cruelty - sem var meðskrifuð af öðrum líka). Ég vona þó að það hljómi ekki eins og ég hafi orðið fyrir svakalegum vonbrigðum með True Grit, en ég varð það samt örlítið. Með áhöldin sem voru til staðar hefði verið hægt að gera eitthvað ógleymanlegt úr þessu. Í staðinn fékk ég bara drullugóða mynd sem ég myndi ekki einu sinni kalla eina af 5 bestu myndum bræðranna. Sættum okkur samt við það að einungis fín mynd frá þeim er oftast betri en margt annað sem þú finnur í bíó.

Miðað við það sem ég hef lesið er True Grit minna endurgerð á hinni samnefndu John Wayne-mynd og meira bein aðlögun á bókinni sem hún er byggð á. 1969 útgáfan átti víst að hafa breytt ýmsu og þess vegna koma bræðurnir og lagfæra það. Áður en ég fer að nefna þá fjölmörgu kosti sem þessi mynd hefur vil ég einblína aðeins á gallana. Til að byrja mér fannst mér ég aldrei ná tengslum við neitt eða neinn á skjánum. Ég naut þess að horfa á hvern einasta leikara enda frammistöður alveg hreint frábærar. Mér fannst samt myndin aldrei ná til mín, hvorki með persónunum né sögunni. Það þótti mér líka hálf hneykslandi hversu fljótt er leyst úr hefndarsögunni. Það er eins og Brolin hafi ekki fengið neitt að gera. Hann kom bara (alveg upp úr þurru! Hvílík tilviljun) og síðan þurfti sagan ekki lengur á honum að halda. Frekar kraftlaust fannst mér, og alls ekki fullnægjandi endir á hefndarplottinu litla. Lokasenurnar voru líka eitthvað svo einkennilega máttlausar í heild sinni. Ég var ekki hrifinn af því hvernig myndin bara fjaraði út þar til hún kláraðist í stað þess að móta endinn betur. Sé þetta alveg fyrir mér virka í bók en í kvikmynd væri þægilegra að fá aðeins safaríkari og minnisstæðari endasprett.

Jeff Bridges er auðvitað aðalmaðurinn á skjánum. Hann er fullkominn sem eineygða byttan Rooster Cogburn. Ég átti ekki von á því að Bridges gæti skapað eftirminnilegri persónu hjá bræðrunum eftir The Big Lebowski en hér tekst honum það bara feiknavel. Matt Damon er einnig traustur og Brolin ásamt Barry Pepper gera gott úr því sem þeir hafa, þó svo að það sé ekki mikið. Á eftir Bridges er það samt hin nýstirnið Hailee Steinfeld sem skilur hvað mest eftir sig. Hún er ekkert annað en æði og að fylgjast með samspili hennar og Bridges er aðgangseyrisins virði í sjálfu sér. Bridges er einn uppáhalds leikarinn minn og að sjá 13 ára píu vera jafningi hans í kvikmynd er ótrúlegt hrós fyrir hana. True Grit tekur sig heldur ekki allan tímann alvarlega, sem er skemmtilegt fyrir tóninn. Dökki Coen-húmorinn finnst dreifður um alla heildina, og það kemur sér vel fyrir þegar ekki rassgat er að gerast í sögunni, sem kemur nokkuð oft fyrir. Mjög stór hluti af frásögninni fer einmitt í það að byggja upp kynnin við persónuna sem Brolin leikur. Fúlt.

Sérstakt hrós fer til tónlistar, sviðsmynda og búninga. Kvikmyndataka Roger Deakins er einnig skotheld en það er svosem ekki við öðru að búast frá manninum sem hefur tekið upp flestar myndir Coen-bræðra. Í heildina er nóg í boði sem margir ættu að kunna að meta. Myndin hefur gott afþreyingargildi og leik sem ómögulegt er að setja út á. Hvað söguna varðar bjóst ég við meiru og miðað við það sem bræðurnir eru þekktir fyrir er myndin í einfaldari kantinum og reyndar hefðbundnari fyrir vikið.

7/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

11.09.2009

Annar "The Dude" á leiðinni?

Variety kvikmyndablaðið segir frá því í dag að Jeff Bridges eigi í viðræðum við Paramount kvikmyndaverið um að leika aðalhlutverkið í endurgerð Joel og Ethan Coen á True Grit. Bridges myndi þar leika sama hlutverk og færði John Wayne...

27.09.2014

Tarantino tekur í True Grit umhverfi

Eins og aðdáendur bandaríska kvikmyndaleikstjórans Quentin Tarantino vita, þá hefur hann haft í nógu að snúast á árinu, en hann hóf vinnu við nýjustu mynd sína The Hateful Eight á þessu ári.  Á tímabili hugleiddi...

22.09.2013

Steinfeld á flótta ásamt Vaughn

Leikkonan Hailee Steinfeld, sem sló í gegn í kúrekamyndinni True Grit og var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í þeirri mynd, á nú í viðræðum um að leika á móti Vince Vaughn í myndinni Term Life. L...

Svipaðar myndirSkrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn