Boyle vill ekki Bond

Óskarsverðlaunaleikstjórinn, og leikstjóri opnunarhátíðar Ólympíuleikanna í London í sumar, Danny Boyle, hefur ekki áhuga á því að leikstýra James Bond mynd í framtíðinni, en hann lét þessi orð falla í viðtali í útvarpsþættinum Front Row á BBC Radio 4.

Vangaveltur um Boyle sem leikstjóra James Bond byrjuðu eftir að sýnt var atriði á opnunarhátíðinni þar sem Daniel Craig í hlutverki Bond hittir Elísabetu Englandsdrottningu áður en tveir áhættuleikarar klæddir eins og Bond og Elísabet, komu svífandi í fallhlíf inn á Ólympíuleikvanginn.

Spurður að því beint í útvarpsþættinum um það hvort hann gæti hugsað sér að leikstýra Bond í heilli bíómynd sagði hann: „Nei það hentar mér ekki vel að vinna í kringum mikið af peningum.“

Boyle sagði að reynsla sín af því að leikstýra myndinni The Beach, þar sem aðalleikarinn var Leonardo DiCaprio, hefði gert hann fráhverfan bíómyndum með mikið framleiðslufé.