Þór sigrar Anakin í Suður-Kóreu!

Fyrsta íslenska tölvuteiknimyndin í fullri lengd, Hetjur Valhallar: Þór var frumsýnd í Suður-Kóreu fyrir helgina ogvoru móttökurnar bæði glæsilegar og óvæntar. Myndin varð vinsælasta erlenda myndin í kvikmyndahúsum þessa helgina og sló þar á meðal út Star Wars: The Phantom Menace (í þrívídd), War Horse og Happy Feet 2.

Það er ekki nóg með að Hetjur Valhallar hafi komið sem þruma inn á aðsóknarlista Kóreubúa heldur hefur myndin strax fyrstu helgina næstum tvöfaldað aðsóknartölur teiknimyndarinnar Happy Feet 2 þrátt fyrir að hún hafi verið í sýningu í tvær vikur. Heildarvelta helgarinnar hljóðar þannig upp á tæpar 180 milljónir íslenskra króna.

Kvikmyndir.is ræddi stutt við Tinnu Hrönn Proppé, kynningarstýru hjá framleiðslukompaníinu Caoz, og aðstandendur þar eru vægast sagt sáttir með árangurinn.

„Þetta er frábær byrjun á sýningu myndarinnar úti í heimi og það er gaman að fylgjast með þessu,“ segir Tinna um opnun myndarinnar í Suður-Kóreu. „Myndin hefur verið seld til um 60 landa og fara þau fljótlega að ákveða dagsetningar á frumsýningum hjá sér. Næst í röðinni eru Danmörk og Noregur í lok apríl og byrjun maí og svo þar á eftir eru Belgía og Holland í júni. Ferðalag Þórs og félaga er því rétt að byrja og það er gaman að það hafi hafist svo fjarri heimahögunum sem raun ber vitni.“

Í tengslum við velgengnina hérlendis segir Tinna að aðstandendur voru rosalega ánægðir með viðtökurnar sem myndin fékk á Íslandi. „Við fengum frábæra dóma hvert sem litið var og aðsóknartölurnar voru góðar. Það er gaman að segja frá því að áhorfendafjöldinn á myndina var svipaður og allur fjöldi íslenskra barna á aldrinum 5-10 ára sem er kjarnamarkhópurinn fyrir myndina,“ segir hún.

„Við erum farin að huga að framtíðinni og höfum aldrei farið leynt með að hugur okkar stefnir lengra en þessi eina mynd. Núna gerum við hernaðaráætlanir á meðan við fylgjumst með heimsreisu myndarinnar og viðtökum hennar víðsvegar um heiminn.“

Aðspurð á því hvort aðstandendur væru komnir með hugmyndir fyrir næstu mynd var svarið býsna einfalt. „Það er af svo gríðarlega mörgu að taka og heimur norrænu goðafræðinnar er svo ríkur af persónum og sögum og er óþrjótandi sagnabrunnur. Við erum ekki farin að gefa neitt uppi um næstu mynd en það er klárlega næsta verkefni fyrir okkur að týna til fleiri spennandi hluti úr þessum frábæra sagnaarfi okkar,“ mælir Tinna.

„Þessa dagana erum við að vinna að ýmsu,“ bætir hún við. „Auk þróunar á tölvuleik tengdum Hetjum Valhallar, þá erum við meðframleiðendur að Ungverskri þrívíddarteiknimynd um Egilssögu og sjáum um hluta af kvikuninni og tónlistina. Myndin sú er ætluð fyrir fullorðna og er gerð með svokallaðri „motion capture“ aðferð. Auk hennar erum við að vinna að nokkrum skemmtilegum auglýsingum og öðrum verkefnum og horfum björt til framtíðar.“

Myndin kemur út á DVD í október en hún verður í boði á VOD í sjónvarpi símans frá og með þessari viku og næstu þrjár vikurnar.