Þögull Christopher Nolan

Nýjasta kvikmynd leikstjórans Christopher Nolan, Dunkirk, fékk góðar viðtökur þegar hún var frumsýnd síðasta sumar. Myndin hefur verið tilnefnd til Golden Globe-verðlauna sem besta myndin auk þess sem Nolan var einnig tilnefndur fyrir sitt framlag. Margir telja að myndin komi einnig sterklega til greina um að fá tilnefningu til Óskarsverðlauna þegar þær verða kynntar þann 23. janúar.

Kvikmyndarásin Like Stories of Old tók sig til á dögunum og gerði átta mínútna langa þögla mynd úr þessari glænýju kvikmynd. Um er að ræða listræna tilraun til þess að mæla út hversu sterk áhrif myndmálið hefur. Auk þess er tilraunin gerð í forvitnilegum tilgangi til þess að sjá hvernig myndin hefði litið út á þriðja áratug síðustu aldar. Þöglar kvikmyndir höfðu einmitt sinn sjarma og voru alltaf í sínu fasta takmarkaða formi þar sem textaspjöld og tónlist ýtti undir tilfinningar á áberandi hátt.

Dunkirk segir frá einhverju magnaðasta björgunarafreki sögunnar þegar Bretum og bandamönnum þeirra tókst, þvert á allar aðstæður, að bjarga um 340 þúsund hermönnum úr nánast vonlausri sjálfheldu í Dunkirk og yfir Ermarsundið þrátt fyrir stanslausar árásir þýskra orrustuflugmanna sem einnig fengu skipanir um að sökkva öllum bátum og skipum sem freistuðu þess að bjarga mönnunum.

Í spilaranum hér að neðan má sjá Dunkirk sem þögla kvikmynd í rétt tæpar átta mínútur.