Sjórinn brennur í Dunkirk – fyrsta plakat

Margir bíða í ofvæni eftir næstu mynd The Dark Knight og Interstellar leikstjórans Christopher Nolan, hinni sannsögulegu Seinni heimsstyrjaldarmynd Dunkirk. Það má segja að plakatið sé einskonar kitla, því von er á fyrstu stiklu fyrir myndina síðar í þessari viku, en hún verður sýnd á undan annarri stórmynd, Rogue One: A Star Wars Story sem frumsýnd verður á föstudaginn.

Á plakatinu sjáum við hermann horfa til hafs þar sem hræðilegir hlutir eiga sér stað. Eldar loga og hermenn sjást stökkva í sjóinn. Ströndin er þakin hermannahjálmum. Herskip er brotið úti fyrir ströndinni.

Myndin sækir efnivið sinn í aðgerð sem kölluð var Dynamo árið 1940, en þá var 340 þúsund hermönnum bandamanna bjargað eftir að hafa lent í sjálfheldu Nasista í norðurhluta Frakklands.

Með helstu hlutverk fara Tom Hardy, Mark Rylance, Kenneth Branagh, Cillian Murphy, Fionn Whitehead, Aneurin Barnard, Harry Styles, James D’Arcy, Jack Lowden og Barry Keoghan.

Kíktu á plakatið hér fyrir neðan. Myndin kemur svo í bíó 21. júlí 2017.

dunkirk