Björn með Jeremy Irons í The Borgias

Þriðja þáttaröð sjónvarpsþáttanna The Borgias með Jeremy Irons í aðalhlutverki hefur hafið göngu sína í Bandaríkjunum, en þessir þættir hafa verið sýndir hér á landi.

Nú fyrr í vikunni kom íslenski leikarinn Björn Hlynur Haraldsson fyrst fram í þáttunum en hann fer með hlutverk Ítalans Gian Paolo Baglioni.

Samkvæmt frétt á mbl.is þá mun persóna Björns Hlyns koma talsvert við sögu í þáttaröðinni en Björn Hlynur dvaldist um fimm mánaða skeið í Búdapest á síðasta ári við tökur. Hann hefur jafnframt verið ráðinn í fjórðu seríu þáttanna en tökur á henni munu hefjast síðsumars, eins og segir í fréttinni.

The Borgias er kardináladrama sem fjallar um Borgias-ættina og valdatíð hennar. Jeremy Irons fer með hlutverk Borgias páfa. SkjárEinn hefur sýnt þættina hér á landi og hefur sýningar á þriðju þáttaröðinni í haust.

Monitor tók viðtal við Björn Hlyn í fyrra eftir að hann hreppti hlutverkið, og má sjá það með því að smella hér. 

Einnig ræddi vísir.is við Björn Hlyn fyrr á þessu ári um leik hans í þáttunum.

Hér fyrir neðan er svo stikla fyrir 3. seríu af The Borgias.