Batman mynd Affleck fær nafn

batmanHægt og sígandi fáum við meiri upplýsingar um Batman myndina sem Ben Affleck er með í smíðum, en hann mun að sjálfsögðu leika aðalhlutverkið, Batman, auk þess að skrifa handrit og leikstýra.

Affleck uppljóstraði nú síðast nafni myndarinnar í samtali við AP fréttastofuna, en vinnuheitið er: The Batman, eða Leðurblökumaðurinn.

„Þetta er amk. það sem við erum að nota núna,“ segir Affleck í myndbandinu hér fyrir neðan. „Ég gæti breytt því.“

Það sem vitað er fleira um myndina er að Affleck vinnur með DC Comics stjóranum Geoff Johns að handritinu, og búið er að ráða í hlutverk aðal þorparans, Deathstroke, Magic Mike leikarann Joe Manganiello ( leikstjóri Justice League, Zack Snyder,  gaf  í skyn á Instagram að Deathstroke  myndi mögulega koma við sögu í þeirri mynd.

„Við erum við skriftir og það gengur vel. Ég er mjög spenntur. Og ég get fullvissað ykkur um að þegar eitthvað fleira verður að frétta, þá heyrið þið af því,“ bætir Affleck við.

Frumsýningardagur hefur ekki verið ákveðinn, en líklega kemur myndin í bíó mitt á milli ofurhetjumyndanna The Flash, sem kemur árið 2018, og Cyborg myndarinnar, sem kemur 2020.

Við sjáum Affleck næst í spennumyndinni The Accountant sem frumsýnd verður hér á landi 4. nóvember nk. Þar á eftir er það Live By Night, sem Affleck leikur aðalhlutverk í, skrifar handrit að og leikstýrir, sem kemur í bíó 13. janúar nk., og loks Justice League sem kemur í bíó 17. nóvember 2017.

Kíktu á spjallið við Affleck hér að neðan þar sem hann segir frá nafni myndarinnar: