Baldwin boðið að vera Marvel illmenni

alec baldwinÞað er alltaf gaman að heyra af hlutverkum sem leikarar hafa hafnað í kvikmyndum, og velta síðan fyrir sér eftir á hvort viðkomandi hefðu verið góðir eða slæmir í hlutverkinu.

Kvikmyndaleikarinn Alec Baldwin var nú nýverið í viðtali í sjónvarpsþættinum The Howard Stern Show, og upplýsti þar að honum hafi staðið til boða hlutverk illmennis í Marvel ofurhetjumynd, án þess að nefna hvaða mynd um var að ræða.

Baldwin upplýsti um þetta eftir að Howard Stern stjórnandi þáttarins spurði afhverju honum hefði aldrei verið boðið hlutverk í ofurhetjumynd eða myndum gerðum eftir teiknimyndasögum.

Baldwin svaraði: „Mér hefur verið boðið slíkt hlutverk, en ég segi ekki í hvaða mynd. Ég vil ekki koma þeim sem á endanum var ráðinn í hlutverkið í leiðinlega stöðu. En þeir báðu mig um að leika þorpara í einni af þessum Marvel myndum. Ég var upptekinn, en þeir vildu fá mig á ákveðnum tíma. En af því að koman mín var ófrísk þá varð ég að hafna tveimur hlutverkum sem ég hafði áhuga á.“

Stern reyndi að fá Baldwin til leysa frá skjóðunni, en Baldwin harðneitaði að segja nokkuð meira á meðan upptökuvélarnar voru enn í gangi.

Miðað við að eiginkona Baldwin er núna komin 6 mánuði á leið þá gætu þetta samkvæmt lauslegri athugun hafa verið myndirnar The Amazing Spider-Man 2, Captain America: The Winter Soldier, X-Men: Days of Future Past eða Guardians of the Galaxy.

Nú er bara að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn…