Áströlsk í The Hunger Games: Mockingjay

Að mestu óþekkt áströlsk leikkona, Stef Dawson, hefur verið ráðin í hlutverk Annie Cresta í þriðju Hunger Games myndinni, The Hunger Games: Mockingjay, sem sýnd verður í tveimur hlutum í nóvember árið 2014 og 2015.

stef dawson

Persónan Annie Cresta er sigurvegari úr svæði 4 ( District 4 ) og er kærasta Finnick Odair, hins sigurvegarans af svæði 4.

Fyrsta Hunger Games myndin sló í gegn í fyrra og hefur þénað 700 milljónir Bandaríkjadala um allan heim, en bækurnar sem myndirnar eru byggðar á, eftir rithöfundinn Suzanne Colins, hafa allar náð metsölu.

Önnur myndin í seríunni, The Hunger Games: Catching Fire, verður frumsýnd í Bandaríkjunum 22. nóvember nk. en þar mun Óskarsverðlaunaleikkonan Jennifer Lawrence mæta aftur í hlutverki aðalhetjunnar, Katniss Everdeen, sigurvegara Hungurleikanna, en þeir ganga út á það að ungmennum er att hverju á móti öðru í baráttu upp á líf og dauða.

Aðrir leikarar sem mæta aftur úr fyrstu myndinni eru Liam Hemsworth, Josh Hutcherson, Elizabeth Banks, Woody Harrelson og Stanley Tucci en við hópinn hafa bæst leikararnir Jena Malone (Johanna Mason), Sam Claflin (Finnick) og Philip Seymour Hoffman (Plutarch Heavensbee).

The Hunger Games: Mockingjay – Part 1 kemur í bíó 21. nóvember á næsta ári, og The Hunger Games: Mockingjay – Part 2 kemur í bíó 20. nóvember 2015.

Leikstjóri allra Catching Fire og Mockingjay er Francis Lawrence, sem þekktur er fyrir myndirnar Constantine, með Keanu Reeves,  og I Am Legend, með Will Smith.