Alþjóðleg haustdagskrá í Bíó Paradís

Myndirnir sem sýndar verða í Bíó Paradís í haust eiga það allar sameiginlegt að hafa slegið í gegn og unnið til verðlauna á öllum helstu kvikmyndahátíðum heims á undanförnum mánuðum. Um er að ræða Óskarsframlög frá Svíþjóð, Tyrklandi, Rússlandi, Ungverjalandi, Kanada og Ítalíu.

Fyrst ber að nefna kvikmyndina Turist eftir Ruben Östlund sem vann til verðlauna á kvikmyndahátíðinni í Cannes síðastliðið vor og vakti mikla athygli á RIFF, en þar var leikstjórinn heiðursgestur. Turist er grátbrosleg og mannleg dramakómedía um skíðaferðalag sænskrar kjarnafjölskyldu sem lendir í snjóflóði í frönsku Ölpunum. Almennar sýningar hefjast í Bíó Paradís 6. október.

turist

Síðar í mánuðinum verður úkraínska kvikmyndin The Tribe tekin til sýninga. Hún vann einnig til verðlauna á Cannes. Myndin þykir stórmerkileg fyrir þær sakir að heyrnarlausir unglingar fara með öll hlutverkin og er myndin alfarið á táknmáli. Mögnuð kvikmyndareynsla sem hefur hlotið frábæra dóma og sópað að sér verðlaunum.

Opnunarmynd rússneskra kvikmyndadaga, sem hefjast þann 23. október, er rússneska meistaraverkið Leviathan. Myndin hefur vakið gríðarlega athygli og hlotið einróma lof en hún var m.a. tilnefnd til gullpálmans í Cannes og hlaut verðlaun fyrir besta handrit. Myndin tekst á við spillingu í Rússlandi samtímans og þykir ekki síður mögnuð fyrir augað.

En það eru ekki aðeins alþjóðlegar gæðamyndir sem verða á boðstólnum því einnig verður íslenska heimildamyndin Salóme tekin til sýninga í nóvember. Salóme vakti mikla lukku og hlaut áhorfendaverðlaunin á Skjaldborg síðastliðið vor en nýverið varð hún fyrst íslenskra heimildamynda til þess að hljóta aðalverðlaunin á Nordisk Panorama. Myndin segir á einlægan hátt frá átakamiklu og stundum bráðfyndnu sambandi móður og dóttur. Myndin er frumraun leikstýrunnar Yrsu Roca Fannberg og frábær viðbót við íslenska heimildamyndaflóru.

Loks má nefna frönsku kvikmyndina Girlhood eftir leikstýruna Celine Sciamma sem fjallar um sjáfsmynd unglingstúlkna í innflytjendahverfum Parísar. Girlhood hefur vakið mikla athygli á kvikmyndahátíðum að undanförnu og m.a. sýnd í Cannes, Feneyjum og Toronto.