500 manna margfætla á leiðinni!

Já, þið lásuð rétt. Hollenski subbukarlinn Tom Six (þekktastur fyrir að ganga lengra yfir strikið en þykir eðlilegt) er búinn að gefa upp ýmsar vægast sagt athyglisverðar upplýsingar um þriðju og síðustu myndina í The Human Centipede-seríunni.

Nýlega uppljóstraði hann því að myndin muni innihalda báða Dieter Laser og Laurence R. Harvey, sem léku snarrugluðu brjálæðinganna í sitthvorum forveranum og voru taldir geysilega eftirminnilegir (burtséð frá gæðum myndanna). Leikstjórinn og handritshöfundurinn mun einnig sjálfur fara með lítið hlutverk í myndinni, þar sem fastlega er reiknað með því að hann leiki sjálfan sig eins og Laser mun eflaust gera (þeir sem sáu mynd nr. 2 munu skilja hvernig þetta virkar allt saman).

Á Twitter-síðunni sinni varpaði síðan Tom Six þeirri sprengju að fimmhundruð manns verða saumaðir saman í þriðju myndinni (sem ber undirheitið The Final Sequence). Í seinustu mynd voru tólf aðilar í margfætlunni og aðeins þrír þar áður – og það þótti nógu truflandi á sínum tíma. Leikstjórinn segir að stóri fjöldinn passi fullkomlega við sögusvið myndarinnar, en þar sem hún mun gerast í bandaríkjunum finnst honum tilvalið að allt verði miklu, miklu stærra að þessu sinni. Fyrsta myndin gerðist í Þýskalandi og önnur myndin í Bretlandi.

Final Sequence fer í tökur í sumar og er væntanleg í kvikmyndahús á næsta ári, ef bíóin þora að taka hana inn.

Annars hefur þessi sturlaði leikstjóri – sem var eflaust aldrei knúsaður nógu oft í æsku – svo sannarlega fundið sér leið til að toppa sig. Hvað finnst ykkur samt? Er þetta eitthvað sem hljómar svo sjúkt að það skapar samstundis forvitni eða hefurðu kannski engan áhuga á þessu yfirdrifna pyntingarklámi?

PS. Undirritaður tók viðtal við Six í nóvember á síðasta ári. Þið getið fundið það HÉR.

PPS. Gangi margfætlunni vel að halda jafnvægi í meira en þrjár sekúndur!