Fólk með sterkar taugar hvatt til að sjá

Nýjasta kvikmynd íslenska leikstjórans Hafsteins Gunnars Sigurðssonar, Norðlæg þægindi eða á ensku Northern Comfort, fær þrjár og hálfa stjörnu af fimm mögulegum í gagnrýni í Morgunblaðinu í dag.

Gagnrýnandinn, Jóna Gréta Hilmarsdóttir, lýsir myndinni sem farsa fremur en gamanmynd, þó hún sé flokkuð sem slík.

Kvikmyndin fjallar um fjölbreyttan hóp af fólki með alvarlega flughræðslu sem verður strandaglópar á Íslandi eftir að hafa sótt flughræðslunámskeið en eins og segir í gagnrýninni var lokaprófraunin útskriftarflug frá London til Íslands.

Hópurinn samanstendur af vanhæfum leiðbeinanda (Simon Manyonda), byggingarverkfræðingi (Lydia Leonard), samfélagsmiðlastjörnu (Ella Rumpf), forritara (Sverrir Guðnason) og fyrrverandi sérsveitarmanni og rithöfundi sem breski leikarinn Timothy Spall leikur, en margir þekkja hann kannski betur sem Peter Pettigrew úr Harry Potter-kvikmyndunum.

Northern Comfort (2023)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn5.5

Fyrrverandi sérsveitarmaður, stressaður byggingaverkfræðingur, áhrifavaldur með hálfa milljón fylgjenda og vanhæfur leiðbeinandi lenda saman á flughræðslunámskeiði. Lokaprófraunin er svokallað útskriftarflug frá London til Íslands sem reynist vera þrautinni þyngri. ...

Björn Viktorsson og Huldar Freyr Arnarson fengu Edduverðlaunin fyrir hljóð. Tilnefnd til tveggja Edduverðlauna.

Flottur leikhópur

Í gagnrýni sinni segir Jóna meðal annars að leikarahópurinn sé flottur og dýnamíkin á milli þeirra sé frábær og skili sér til áhorfenda. „Simon Manyonda, sem ráðvillti leiðbeinandinn Charles, er hins vegar senuþjófur myndarinnar. Undir lokin var nóg að stilla myndavélinni fyrir framan Manyonda og leikarinn sagði áhorfendum nákvæmlega hvað hann var að hugsa án þess að segja stakt orð – hugsunin og um leið húmorinn spratt fram af andliti hans. Það er alltaf gaman þegar sögn er breytt í aðgerð og er merki um bæði góðan leik og tök leikstjórans á kvikmyndaforminu,“ segir í gagnrýninni.

Óþolandi par

Jóna segir einnig að parið, þ.e. samfélagsmiðlastjarnan Coco og kærasti hennar og forritarinn Alfons, hafi verið óþolandi og eflaust hafi það verið viljandi því gagnrýnandinn efist um að það hafi verið viljandi að gera þau ófyndin.

„Hugmyndin um sjálfumglöðu og heimsku samfélagsmiðlastjörnuna og kærastann sem fylgir í eftirdragi var kannski mjög viðeigandi fyrir nokkrum árum, þegar kvikmyndin var skrifuð, en í dag eru þetta ofnotaðar og ofureinfaldar steríótýpur og þar af leiðandi hætt að vera fyndið. Það er bara, því miður, ekki hægt að segja sömu brandarana oft.“

Jóna klikkir út með því að segja að Northern Comfort sé í heild vel unnin grínmynd eða farsi sem hún hvetur fólk með sterkar taugar til að sjá.