Arnold verður Governator

Þær fréttir berast nú utan úr heimi að Arnold Schwarzenegger ætli sér að birtast næst í formi teiknimyndahetjunnar Governator, sem er þá tilvísun í daga tröllsins sem ríkisstjóri í Kaliforníu.

Fyrst það er nú 1. apríl í dag og allt það þá er kannski allt í lagi að taka þessu með fyrirvara… en fréttin er skemmtileg og að mörgu leyti rökrétt engu að síður.

Þrír mánuðir eru nú síðan Arnie sté niður úr stóli ríkisstjóra, og því er þetta löngu tímabært útspil hjá meistaranum.

Leikarinn vinnur að verkefninu í samstarfi við sjálfan Stan Lee, skapara Spider Man, en Governator fígúran mun verða aðalstjarnan í teiknimyndaþáttum og í teiknimyndasögubók.

Fleiri upplýsingar verða gefnar í næstu viku, en þeir félagarnir Schwarzenegger og Lee, sögðu frá þessu í samtali við glamúrblaðið Entertainment Weekly.

„The Governator er mjög einföld hugmynd. Þarna tökum við fyrir allan feril minn, sem vaxtarræktarmaður, hasarmyndaleikari, ríkisstjóri, eða hvað annað,“ sagði hinn 63 ára gamli leikari í samtali við blaðið. „Þarna blöndum við þessu öllu saman. Þessi maður hefur það eitt í hyggju að berjast gegn óréttlæti, náttúruhamförum, og ætlar að taka til hendinni,“ sagði Arnold á vefsíðu tímaritsins.

Þetta hliðarsjálf Arnolds mun hafa aðgang allskonar farartækjum sem vistuð eru í Arnoldar hellinum, undir húsinu hans, og auk þess á hann stóran fataskáp fullan af ofurhetjubúningum, sem hjálpa honum að fljúga og framkvæma allskyns kúnstir.

Óvinir hans verða margvíslegir, og þar á meðal hið illa fyrirtæki Gangsters Imposters Racketeers Liars & Irredeemable Ex-cons — eða GIRLIE Men, eins og það er skammstafað, eftir frægum frasa ríkisstjórans fyrrverandi.

„Ég er mjög hrifinn af hugmyndinni um stjórnstöð undir húsinu mínu með braut beint út í sjó svo ég geti farið á bát eða kafbát beint út í sjóinn,“ sagði Arnold í viðtalinu við tímaritið, sem er hið fyrsta síðan hann hætti sem ríkisstjóri í Kaliforníu.

Teiknimyndaserían og bókin, koma ekki á markaðinn fyrr en á næsta ári, en Stan Lee hefur staðfest að sagan verði byggð á lífi Arnolds.

„Við notum allt líf hans. Konuna, börnin og þá staðreynd að hann var einu sinni ríkisstjóri.“

Schwarzenegger kom til Bandaríkjanna 21 árs gamall árið 1968, og varð milljónamæringur og vann vaxtarræktarkeppnina Mr Universe fjórum sinnum. Í kjölfarið sneri hann sér að kvikmyndaleik.