Gúgglaði sig einu sinni

Þessi Gullkorn birtust fyrst í júníhefti Mynda mánaðarins!

Ég er ensk, það hefur aldrei verið nein spurning. Mér hefur aldrei fundist ég tilheyra Bandaríkjunum.

– Sienna Miller, sem fæddist í Bandaríkjunum og á bandarískan föður.

sienna

Flest börn eru fæddir leikarar og eiga í engum vandræðum með að leika. Fylgstu bara með litlu barni sem talar við sjálft sig eða leikföngin sín og lifir sig að fullu inn í hlutverkið.

– Clint Eastwood.

Ég hef aldrei æft líkamsrækt til þess að safna vöðvum. Fyrir mér hefur líkamsræktin bara alltaf verið hluti af því að viðhalda heilbrigði mínu og líða vel.

– James Marsden.

Í hvert sinn sem ég stend frammi fyrir því að taka ákvörðun varðandi eitthvað sem mér finnst erfitt að taka ákvörðun um þá hugsa ég H.M.S.B.G. eða „hvað myndi Sandra Bullock gera“.

– Katherine Heigl, sem segir Söndru Bullock vera fyrirmynd sína.

Eina myndin sem ég lék í eingöngu vegna þess að mig vantaði peninginn er Music From Another Room.

– Jude Law.

Já, ég hef gert það. En ég geri það aldrei aftur.

– Ben Barnes, að svara því hvort hann hafi prófað að gúggla sjálfan sig.

Hún er meistaraverk, eiginlega orðin ein af þessum sígildu. Ég hef oft rekist á hana í sjónvarpinu og ætlað bara að horfa á eitt atriði en svo endar það alltaf með því að ég horfi á hana alla. Ég veit ekki hvað ég hef séð hana oft.

– Jeff Bridges, um The Big Lebowski.

Nei, ég ákvað fyrir löngu að láta það ekki fara í taugarnar á mér. Fólki finnst merkilegt að þau skuli vera foreldrar mínir. Þannig er það bara. Fyrir mér eru þau samt bara mamma og pabbi.

– Dakota Johnson, spurð að því hvort henni þyki leiðinlegt að vera alltaf spurð um foreldra sína, Don Johnson og Melanie Griffith, í viðtölum.

Mér finnst fátt skemmtilegra en að aka um einn á góðum bíl, slökkva á símum, kveikja kannski á útvarpi og svo bara keyra og keyra. Ég er búinn að aka flesta vegi í Kaliforníu og þvert yfir Bandaríkin að minnsta kosti tuttugu sinnum. Vonandi geri ég það oft aftur.

– Sean Penn.

Ég spáði ekkert í kvikmyndir og fór sjaldan í bíó. Hugur minn var allur í leikhúsum og ég reyndi að sjá öll leikrit sem sett voru upp í London. Þegar Scarlett Johansson komst að því hvað ég hafði séð fáar kvikmyndir skrifaði hún upp lista af myndum sem hún sagði mér að sjá svo ég yrði viðræðuhæfur næst þegar við hittumst.

– Eddie Redmayne.

Já, það var erfitt. Reyndar fannst mér líkamsræktin ekkert erfið því mér finnst gaman í henni, en það erfiða er að halda sig við rétta mataræðið. Ég ákvað samt að beita mig hörðu og borða bara það sem þjálfararnir sögðu mér að borða. Ég var jú að fara að leika náunga sem bjargar heiminum þannig að það hlaut að vera þess virði.

– Taron Egerton, um hvort það hefði verið erfitt að koma sér í form fyrir hlutverk Garys í Kingsman: The Secret Service.

300.MarkHamill.CarrieFisher.jc.1977Star Wars-sagan endar aldrei. Ég áttaði mig á því fyrir mörgum árum. Hún mun alltaf halda áfram.

– Mark Hamill.

Ég sé fyrir mér að einn góðan veðurdag verð ég farinn að gera eitthvað allt annað en að leika, t.d. skrifa bækur eða svara í símann í utanríkisráðuneytinu.

– Colin Firth, spurður að því hvernig hann sjái þróunina verða hjá sér næstu tíu ár.

Flestir halda að ég sé indverskur. Foreldrar mínir eru hins vegar frá Kenýa þótt þeir séu af indversku fólki komnir. Sjálfur er ég fæddur og alinn upp í London og því Breti. Þegar ég lék í Slumdog Millionaire þá var það í fyrsta skipti sem ég kom til Indlands.

– Dev Patel, að leiðrétta algengan misskilning hjá viðmælendum sínum.

Karlar í Hollywood sem standa uppi í hárinu á stóru fyrirtækjunum, láta þau ekki vaða yfir sig og segja hug sinn eru hugrakkir og menn að meiru. Konur sem gera það sama eru hundleiðinlegar og óalandi vælukjóar.

– Sigourney Weaver, um mismunandi viðhorf til kynjanna í Hollywood.

Hann tók sér aldrei frí. Hann var alltaf að vinna eitthvað. Honum fannst það algjör tímasóun að gera ekki neitt og skildi ekki fólk sem sat bara og lét tímann líða. Ég lærði þetta af honum.

– Hugh Jackman, um föður sinn.