P-i-B í fullri lengd

Ég er viss um að enginn sé búinn að gleyma hversu geysilega fyndin og skemmtileg persónan Puss-in-Boots (m.ö.o: Stígvélaði Kötturinn – eins og hann er þekktur á móðurmálinu) var í Shrek 2. Honum tókst a.m.k. að heilla nógu marga til að aðstandendur DreamWorks Animation færu að heimta að hann fái sína eigin bíómynd í fullri lengd.

Já, þið lásuð rétt. Þessi spænskumælandi sprelligosi fær að spreyta sig á ný í sínu eigin ævintýri, og að sjálfsögðu undir raddsetningu Antonio Banderas. Sagan er sögð mun vera fersk, í stað þeirrar gömlu sem fígúran er byggð á. Aftur á móti mun þessi mynd ekki rata í kvikmyndahús. Áætlað er að hún fari beint á vídeó. Annars mun hann aftur einnig sjást í þriðju Shrek myndinni, sem nú er í framleiðslu. Og maður veit aldrei nema græna tröllið og asninn með munnræpuna bregða fyrir í litlu gestahlutverki í hinni myndinni, fyrst um sama lið er að ræða.